15.7.2018 9:40

Tilvistarvandinn og Ögmundur

Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og ráðherra VG, gagnrýnir Katrínu fyrir að taka þátt í þessunm fundum og segir NATO hernaðarbandlag í tilvistarvanda.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og ráðherra, telur að Íslendingar eigi að koma boðskap sínum í alþjóðamálum á framfæri annarsstaðar en á leiðtogafundum Atlantshafsbandalagsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ríkisoddvitafund NATO í Brussel 11. og 12. júlí. Hún sagði réttilega að henni væri þetta skylt sem forsætisráðherra í ríkisstjórn sem virti þjóðaröryggistefnu Íslands þar sem aðild að NATO og varnarsamstarf við Bandaríkin eru hornsteinar.

Þeir sem sækja þessa fundi staðfesta með setu sinni stuðning við það sem segir í ályktun fundarins. Þar er vikið að málum sem forsætisráðherra Íslands eru hugleikin eins og að NATO sé ekki ógn við neina þjóð. Allt það sem gert sé í nafni bandalagsins sé til varnar, virði meðalhóf og sé gegnsætt; falli innan þess ramma sem NATO sé settur með lögum og pólitískum ákvörðunum. Bandalagið vilji vinna að vígbúnaðareftirliti, afvopnun og banni við drefingu gjöreyðingarvopna.

1060128

Lögð er áhersla á að NATO fylgist vel með öllum breytingum sem snerti öryggi aðildarlandanna. Í því efni er í ályktuninni minnt á nýja stefnu NATO sem kennd er við konur, frið og öryggi, vernd almennra borgara og barna í hernaðarátökum og áform um að auka hlut NATO á þessum sviðum.

Hver ræðumaður á slíkum fundi leggur áherslu á sitt áhugasvið innan ramma fundarins og bandalagsins. Katrín Jakobsdóttir gerði það og sat auk þess hliðarfund um konur, frið og öryggi þar sem hún flutti ræðu sem vakti jákvæða athygli utan fundarins enda var hann opinn.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og ráðherra VG, gagnrýnir Katrínu fyrir að taka þátt í þessunm fundum og segir NATO hernaðarbandlag í tilvistarvanda síðan Varsjárbandalagið hvarf fyrir 25 árum. Söguskoðun Ögmundar stenst ekki og einkennilegt er að mæla gegn því að forsætisráðherra Íslands nýti öflugasta vettvang í þágu heimsöryggis til að kynna sjónarmið sín innan ramma stefnu þjóðarinnar í öryggismálum. Ögmundur er andvígur þjóðaröryggisstefnunni en bendir ekki á neinn annan kost enda er hann ekki fyrir hendi. Það er Ögmundur en ekki NATO sem leitar að nýjum tilvistargrunni fyrir stefnu sína í öryggismálum frá hruni Sovétríkjanna og valdakerfis þeirra.