17.6.2018 10:58

Hannes Þór­–Ronaldo/Messi 2:0.

Einbeitingu og afli hennar hefur verið líkt við það þegar stækkunargler magnar sólarljós þannig að gat myndast á pappírsblaði.

Að sjá og heyra hver margir sungu þjóðsönginn í upphafi leiks Íslands og Argentínu á HM í Moskvu í gær (16. júní) snart sjónvarpsáhorfandann heima í stofu. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM var í þessum kröftuga anda og stóðst það Argentínumönnum undir forystu Lionels Messis snúning með öflugri og óttalausri vörn gegn stórstjörnunni og mönnum hans.

Gettyimages-976168714Hannes Þór Halldórsson ver vítaspyrnu Lionels Messis á HM í Moskvu 16. júní 2018.

Hannes Þór Halldórsson markmaður var maður leiksins. Hann varði vítaspyrnu sem Messi tók. Í samtali eftir leikinn sagðist hann hafa búið sig vel undir leikinn meðal annars með því að kynna sér til þrautar tæknina sem Messi beitti. Mátti skilja hann svo að eftir þessa athugun sína og samtöl kvöldið fyrir leikinn hefði niðurstaðan orðið að líklega mundi Messi beita þeirri aðferð sem hann gerði og Hannes Þór var einfaldlega við henni búinn!

Þetta minnir á atvikið föstudaginn 15. júní þegar Ronaldo einbeitti sér svo mjög að aukaspyrnunni gegn Spánverjum að það var í raun áþreifanlegt fyrir þá sem sátu fyrir framan sjónvarpið. Myndavélarnar fylgdust ekki með Hannesi Þór á sama hátt og Ronaldo svo að einbeiting hans og hæfileiki til að hverfa inn í augnablikið og láta ekkert trufla sig frá verkefninu sem við blasti sást ekki.

Einbeitingu og afli hennar hefur verið líkt við það þegar stækkunargler magnar sólarljós þannig að gat myndast á pappírsblaði. Þar sannast þessi orð: „Kraftur hugans er takmarkalaus. Því meiri sem einbeiting hans er þeim mun meira afl beinist að einum punkti.“

Í læknavísindunum beinast rannsóknir mjög að því að kanna áhrif sálar á líkama. Í íþróttum er þróunin á sama veg: Heilbrigð sál í hraustum líkama var sagt, hitt á ekki síður við: Hraustur líkami vegna heilbrigðrar sálar.

Hér var í gær var sagt að í leiknum við Íslendinga mundi Messi vilja sanna fyrir heiminum að hann væri betri en Ronaldo. Eftir leikinn sagði í þýska blaðinu Die Welt:

„Und so gab es am Ende dieses besonderen Spieles zwei Ergebnisse: Argentinien – Island 1:1. Ronaldo – Messi 3:0.“ : Í lok þessa sérstaka leiks blöstu við tvenn úrslit: Argentína–Ísland 1:1. Ronaldo–Messi 3:0.

Messi getur þó huggað sig við að í leik Íslands og Portúgals á EM 2016 í Frakklandi, sem lauk 1:1, varði Hannes Þór spyrnu Ronaldos. Die Welt hefði átt að bæta við Hannes Þór­–Ronaldo/Messi 2:0.