26.4.2018 19:52

Gengið niður Olíufjallið

Það var bjart og fallegt veður þegar við fórum í fótspor Jesús niður Olíufjallið.

 

Dagurinn hófst á Olíufjallinu með Jerúsalem í vestri og Vesturbakkkann, Júdeu-Súmeru, í austri. Fjallið er um 800 metrar á hæð og skammt fyrir suðaustan það er Dauðahafið um 400 metra undir sjávarmáli.

Vegna þess hve Jerúsalem stendur hátt rignir þar og í suður- norður fjallgarðinum en fyrir austan tekur við eyðimörkin. Rigningu í Jerúsalem kynntumst við aðeins í gær en ekki síður í dag. Hún er liður í því að borgin skiptir svona miklu í geopólitísku samhengi, það er þegar stjórnmál og landafræði sameinast á einstakan hátt.

Það var bjart og fallegt veður þegar við fórum í fótspor Jesú niður Olíufjallið. Fengum að sjá árþúsunda gamalt grafhýsi áður en við gengum niður fjallshlíðina með múra Jerúsalem fyrir augunum á hæð handan dalsins.

Úr glugga kirkjunnar Dominus Flevit, Drottinn grét. Handan við krossinn má sjá yfir á Musterishæðina en þangað horfði Jesús þegar hann grét yfir örlögum Jerúsalem.

Franskiskumunkar hafa reist kirkjur þar sem Jesús grét yfir örlögum Jerúsalem og einnig við Getsemanegarðinn (Olíugarðinn) þegar komið er niður í dalinn. Þarna eru sungnar pílagrímamessur og hópar fólks koma saman til að minnast síðustu daga Jesú. Lesið er úr guðspjöllunum og rifjað upp hvað gerðist á hverjum stað. Sagan er í hverju fótmáli.

Frá Getsemane ókum við með suðurhlið gömlu borgarmúra Jerúsalem upp á Síonfjall þar sem er gröf Davíð konungs og salurinn þar sem síðasta kvöldmáltíðin var snædd. Þetta er einstakur staður því að þarna sameinast bænastaðir gyðinga, kristinna og múslíma.

Úr Getsemane – Oliugarðinum

Við gröf Davíðs á Síonsfjalli.

Eftir hádegi fórum við í Ísraelssafn sem er á hæð skammt frá Knesset, þingi Ísraels. Þar má sjá brot af Dauðahafshandritunum auk margvíslegra minja úr sögu Ísraels. Sérstök bygging var reist yfir Dauðahafshandritin fyrir fáeinum árum en fundur þeirra þykir einn merkasti fornleifafundur síðari áratuga. Hér má sjá grein um Dauðahafshandritin 

Í aðeins um hundrað metra fjarlægð frá Ísraelssafni er Bible Land-safnið sem segir sögu landanna að baki Biblíunni. Forstöðukona þess tók á móti hópnum og leiddi okkur um safnið og staldraði við nokkra af einsökum munum sem þar er að finna.

Við vorum að frá 08.30 til 18.00 og þegar við héldum heim voru þrumur og eldingar í Jerúsalem með slíkri úrkomu að ökumaður rútunnar sagðist aldrei hafa kynnst öðru eins.

Skýfallið olli flóðum og vandræðum af ýmsu tagi.

Götur voru eins og lækir eða ár eftir skýfallið og síðasta spölinn gengum við um stræti þar sem steinar höfðu losnað og flætt með straumnum, fólk stóð verslunum og jós vatni út úr þeim og annað var eftir því. Í raun má segja að vísir að neyðarástandi hafi ríkt.