25.4.2018 15:56

Jerúsalem - borg borganna

Að ganga um Jerúsalem í fylgd góðs leiðsögumanns er kennslustund í trúarbragða- og mannkynssögu og hana fengum við ferðafélagarnir sem fórum um gömlu borgina í dag.

Að ganga um Jerúsalem í fylgd góðs leiðsögumanns er kennslustund í trúarbragða- og mannkynssögu og hana fengum við ferðafélagarnir sem fórum um gömlu borgina í dag undir merkjum félagsins Minjar og saga. Stefán Einar Stefánsson, formaður félagsins, hafði tryggt okkur tæplega 30 ferðafélögum leiðsögumann sem fór í raun langt fram úr því sem vænta mátti.

Að endursegja allan fróðleikinn að kvöldi dags verður ekki gert. Merkilegt var að að fræðast um niðurstöður fornleifafræðinga og annarra sem hafa á síðustu áratugum rannsakað fornminjar. Talið er að aðeins 10% af slíkum minjum hafi verið rannsakaðar að einhverju leyti.

File-10Þarna var bílastæði. Til hægri á myndinni fyrir neðan efsta trévirkið var malbikslagið á stæðinu áður en fornleifagröfturinn hófst hann hefur þegar leitt í ljós eldri minjar en frá Rómverjum fyrir 2000 árum. Það má sjá svartar fötur fornleifafræðinganna í rústunum. Þeir vinna enn að rannsóknum sínum.

Það sem kemur í ljós staðfestir frásagnir í Biblíunni og heimildargildi hennar. Höll Davíðs konungs er fundin og skammt frá henni þar sem áður var bílastæði er unnt að sjá fornleifasvæði. Þar er nú unnið að því að grafa og í ljós hafa komið um 2000 ára rómverskar rústir svo að eitthvað sé nefnt.

IMG_5763_1524671512261Við gengum eftir nýopnuðu frárennsli neðanjarðar sem talið er að sé frá tíma Heródesar og þjónaði þeim tilgangi að safna rigningarvatni úr borginni og veita því niður eftir dalverpi í safnþró þar sem menn böðuðu sig áður en þeir héldu til borgarinnar.

Ekkert af því sem rannsakað er hnekkir neinu sem skrifað er og skráð heldur staðfestir það.

Öll trúarbrögð sameinast í Jerúsalem og einnig kristnar kirkjudeildir, til dæmis í Grafarkirkjunni, einum helgasta stað kristinna manna. Þar hafa einstakar kirkjudeildir sín „áhrifasvæði“ og hafa mótað sér samskiptareglur til að tryggja friðsamlega sambúð sína.

Grátmúr gyðinga er við Musterishæðina en á svæðinu sem Heródes lét slétta ofan á henni (á stærð við 12 knattspyrnuvelli) eru moskur og þar ráða múslimar.

Eftir átök milli gyðinga og araba um aldamótin 2000 var Musterishæðinni lokað en áður hafði hún verið opin fyrir ferðamenn. Þarna er þriðji helgasti staður múslima.

Samkomulag náðist um að opna hæðina tvisvar sinnum á dag, frá 08.30 til 11.00 og 13.30 til 14.30. Þegar við komum kl. 13. 20 að leiðinni upp á hæðina, eftir göngupalli sem er skammt sunnan við grátmúrinn, var biðröð þeirra sem vildu skoða hæðina feiknalöng.

Við höfðum tækifæri til að sjá moskunar tvær að utan en undir yfirborði jarðar er nýgerð, risastór moska sem við sáum ekki.  Við máttum nefnilega ekki fara í inn í moskunar. Bann við því settu múslimar þegar Ísraelar knúðu þá til að opna hæðina almenningi að nýju. Þessu banni svöruðu Ísraelar með því að banna aðgangseyri að hæðinni úr því að gestir mættu ekki skoða mannvirkin þar nema að utan.

Verðir Musterishæðarinnar sjá til þess að gestir virði tímamörkin því að okkur var vísað ofan af henni á mínútunni 14.30.

Þaðan fórum við í gegnum múslimahverfið og á Via Dolorosa, leiðina sem kristur gekk með krossinn upp á Golgata, Hausaskeljastað.