24.3.2018 9:36

Jón Leifs og Snorri

Tónleikarnir í gærkvöldi og málþingið í dag staðfesta enn og aftur að Snorri og íslenski menningararfurinn á beint erindi til samtímans

Í ár eru 50 ár frá því að Jón Leifs andaðist og í gærkvöldi var stórverk hans Edda II – Líf guðanna heimsfrumflutt í Eldborg af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Schola Cantorum með einsöngvurunum Hönnu Dóru Sturludóttur, Elmari Gilbetssyni og Kristni Sigmundssyni – Hermann Bäumer stjórnaði á tónleikunum en Hörður Áskelsson æfði kórinn.

Það sannaðist enn á þessu verki að Jón Leifs var langt á undan sinni samtíð. Það er ekki fyrr en nú hálfri öld eftir dauða tónskáldsins og 52 árum eftir að Jón lauk við verkið sem það er flutt í fyrsta sinn, það var samið á árunum 1951 til 1966.

Í tónleikaskrá skrifar Árni Heimir Ingólfsson: „Hafi Edda I – Sköpun heimsins gert nær óviðráðanlegar kröfur um fjölda og getu flytjenda gengur Edda II – Líf guðanna skrefi lengra.“

Í þessum orðum er að finna skýringu á því að verkið hefur ekki verið flutt fyrr. Þá ber þess einnig að geta að mikil vinna liggur að baki því að skrifa nótur Jóns Leifs þannig að unnt sé að flytja verk hans. Þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hans árið 1999 ákvað ríkisstjórnin að veita fé til að tölvuskrá verk Jóns. Hvort rekja megi nóturnar sem notaðar eru  til þess framtaks skal ekki fullyrt.

Tónleikarnir voru styrktir af afmælisnefnd 100 ára afmæli fullveldis og STEFi. Þeir verða sendir út á rás 1 í ríkisútvarpinu kl. 19.30 á skírdag.

Hér verður ekki birt nein tónlistargagnrýni en kvöldstundin verður ógleymanleg.

File-6_1521884035174Myndina tók ég í lok flutnings Eddu II eftir Jón Leifs í Eldborg að kvöldi föstudags 23. mars - þarna var verkið flutt í fyrsta sinn.

Í tónleikaskrá eru textar birtir en þeir verða ekki við hendina fyrir útvarpshlustendur, nema þeir séu aðgengilegir á netinu. Í mínum huga gaf það verkinu aukið gildi að fylgjast með textunum sem Jón Leifs valdi. Þar segir meðal annars: „Freyja giftist manni þeim, sem Óðr heitir, þeirra dóttir er Hnoss; hon er svá fögr at af hennar nafni er hnossir kallaðar, þat er fagurt er og gersimligt.“

Til Hnoss rekjum við orðið hnossgæti. Þannig hittir margt fleira beint í mark í samtímanum úr þessum fornu textum frá Snorra Sturlusyni.

Í dag verður málþing í Reykholti í Borgarfirði þar sem Snorri bjó. Knut Ødegård skáld lauk í fyrra útgáfu í fjórum bindum á eddukvæðum á norsku. Útgáfan er tvímála og er þýðing Knuts prentuð ásamt íslenska frumtextanum. Prófessor Lars Lönnroth í Gautaborg sendi frá sér nýja þýðingu allra eddukvæða á sænsku árið 2016. Prófessor Carolyne Larrington í Oxford birti árið 2014 endurskoðaða útgáfu á eldri þýðingu sinni á ensku sem birtist fyrst árið 1996.

Þau taka öll þátt í málþinginu sem haldið er á vegum Snorrastofu og kynna verk sín.

Tónleikarnir í gærkvöldi og málþingið í dag staðfesta enn og aftur að Snorri og íslenski menningararfurinn á beint erindi til samtímans. Í viðtali í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. mars sagði Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, að á döfinni væri að semja rit um höfundarverk Snorra og framhaldslíf. Leitast yrði við að varpa ljósi á það hversu mikilvægt hlutverk Snorra var og er í menningarsögunni.

Rannsóknin að baki riti um framhaldslíf verka Snorra verður örugglega viðamikil og teygir sig víða. Á grundvelli hennar ætti síðan að setja upp sérstaka sýningu í Reykholti.

 

´