12.8.2008 5:23

Mánudagur, 11. 08. 08.

Við Íslendingarnir, Sigurður Kári Kristjánsson, Karl Matthíasson og Jón Bjarnason alþingismenn auk mín og Örnu Bang, starfsmanns alþjóðaskrifstofu alþingis, og Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra vestnorræna ráðsins, flugum frá Minneapolis til Fairbanks í Alaska í um átta tíma með millilendingu í Anchorage.

NorthWest-flugfélagið tilkynnti rétt um kl 09.00 seinkun á 09.20 flugi til Anchorage vegna olíuleka í vélinni, sem þá átti að fara. Nokkru síðar var tilkynnt, að ný vél á næsta útgönguhliði væri til taks, en hún væri minni en áætlunarvélin og þess vegna þyrfti að fækka farþegum. Tók það allt sinn tíma. Við lentum klukkan 13.15 að staðartíma eftir tæplega sex tíma flug - það er eins og frá Íslandi til Minneapolis og tímamunur hinn sami, fjórar stundir.

Þegar í loft var komið um klukkustund á eftir áætlun sagði flugstjóriinn, að hann yrði að fljúga austar en ella vegna hættu á ösku frá eldgosum á Aleuta-eyjum, en þar væru þrjú eldfjöll virk um þessar mundir. Þess vegna var flogið austan og norður fyrir Fairbanks og þaðan tekin stefna í suður á Anchorage, sem er um 40 mínútum sunnar. Í aðflugli til Anchorage sáum við hið tignarlega fjall Mt. Kinley í allri sinni dýrð - hæsta fjall N-Ameríku.

Þrátt fyrir seinkun náðum við upphaflegri vél frá Anchorage til Fairbanks og, sem meira var, að töskur okkar allra  birtust á belitinu í Fairbanks, sem sannaði enn sveigjanlega og kraft hins frjálsa hagkerfis! Flugið milli Anchorage og Fairbanks er um 40 mínútur.

Við fréttum síðar um kvöldið í móttöku forseta háskólans í Fairbanks, að ráðstefnugestir hefðu ekki komist frá Seattle á vesturströnd Banadríkjanna til Fairbanks af ótta við, að flugvélar þeirra lentu í vandræðum vegna ösku frá eldgosunum í austri.