3.7.2008 8:38

Fimmtudagur, 03. 07. 08.

Við vorum í kirkjunni að Breiðabólstað í Fljótshlíð klukkan um 11.00 vegna jarðarfara nágranna okkar, Jóns Ólafssonar á Kirkjulæk. Hann lést langt um aldur fram eftir skammvinn en erfið veikindi.

Þegar við ókum að Breiðabólstað um klukkan 10.30 var þangað stöðugur straumur bíla og var þeim lagt út á tún fyrir neðan kirkjuna. Nokkur hundruð manna fylgdust með athöfninni í bílum sínum en henni var útvarpað. Við stóðum í anddyri kirkjunnar. Talið er, að um 800 manns hafi verið við jarðarförina.

Jón var meðal þeirra fyrstu, sem við kynntumst, þegar við tókum að búa um okkur í næsta nágrenni hans í Fljótshlíðinni. Hann kom að því með Viðari í Hlíðarbóli að aðstoða mig við að setja túnþökur á blettinn okkar, hlóð upp gamlar bæjardyr og fjósvegg.

Jóni var svo sannarlega margt til lista lagt. Hann opnaði kaffihúsið Langbrók rétt fyrir neðan okkur og hlóð síðan Meyjarhof og bjó til gosbrunn í kaffihússins. Í fyrra fór ég með starfsfólki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á þessar slóðir. Þegar andlátsfrétt Jóns barst rifjuðum við upp, hve skemmtilegt var að hitta Jón í hofinu, þar sem hann sagði sögur, fór með vísur og tók lagið. Hann var svo sannarlega hrókur alls fagnaðar og mikill gleðigjafi.

Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng og kórar sungu en Jón var ötull þátttakandi í tónlistarlífinu í Rangárþingi og víðar. Eftir athöfnina var boðið til hádegisverðar, hangikjöt, í félagsheimilinu Goðalandi. Mörg hundruð manns þáðu boðið.

Nokkrar umræður hafa verið í dag vegna úrskurðar útlendingastofnunar um brottvísun manns frá Kenýa frá landinu. Ég hef fengið tölvubréf vegna þessa. Ég ætla ekki að svara hverjum og einum heldur birta almennt svar hér á vefsíðunni.

Þegar útlendingastofnun tekur ákvörðun í málum sem þessum, er það gert án samráðs við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, enda er unnt að kæra niðurstöðuna til ráðuneytisins. Að lokinni meðferð ráðuneytisins, sé mál kært til þess, má leita álits umboðsmanns alþingis eða dómstóla. Vegna kæruheimildarinnar ræðir ráðherra ekki niðurstöðu einstakra mála opinberlega, ella yrði hann vanhæfur til að fjalla um kæru vegna þeirra. Þessa grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins ber að virða ekki síður en aðrar reglur hans.

Við meðferð mála af þessu tagi eru embættismenn bundnir af lögum eigin lands og alþjóðasamningum, þar á meðal svonefndum Dyflinarsamningi, sem liggur að baki ákvörðun í þessu máli, sem nú er til umræðu.

Allt frá því núverandi útlendingalöggjöf var sett hafa verið miklar umræður um framkvæmd þeirra. Ég hef tvisvar flutt viðamikil frumvörp um breytingar á lögunum og tekið mið af reynslu við framkvæmd þeirra við gerð breytingartillagna. Náðist víðtæk samstaða um málið á síðasta þingi. Hin pólitíska stefnumótun mín sem ráðherra kemur fram í þessum frumvörpum og því, sem ég hef sagt um þessi mál á alþingi eða annars staðar á opinberum vettvangi.

Innan útlendingastofnunar hefur orðið til mikil þekking og reynsla á starfssviði hennar undanfarin ár. Álag á stofnunina og starfsmenn hennar hefur verið gífurlega mikið eins og tölur um útgefin leyfi sýna. Á síðasta ári voru útgefin dvalar- og atvinnuleyfi hér rúmlega 13.500 eða álíka mörg og í Finnlandi, þar sem 5 milljónir manna búa.

Hildur Dungal, hefur verið farsæll stjórnandi stofnunarinnar undanfarin ár. Hinn 1. júní sl. fór hún í barneignarleyfi og setti ég Hauk Guðmundsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, forstjóra í hennar stað. Haukur hefur mikla reynslu af útlendingamálum og framkvæmd þeirra innan lands og utan.