9.5.2024 9:38

Upplýsingafölsun Kristrúnar

Það er hreinlega upplýsingafölsun af verstu gerð að ríkisstjórnin hafi sett efnahagsmálin „á hvolf“.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur boðað að hún þurfi tvö kjörtímabil eða jafnvel 10 ár til að vinda ofan af þeim vanda sem hún telur núverandi ríkisstjórn hafa skapað í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, boðar að leysa eigi vandann í ríkisfjármálum með því að auka tekjur ríkissjóðs.

Þetta hvoru tveggja liggur fyrir í ræðum þessara forystumanna Samfylkingarinnar. Á hinn bóginn stendur ekki á því að flokksformaðurinn standi upp á alþingi og tali eins og Samfylkingin hafi ráð undir rifi hverju til að kippa öllu í liðinn strax. Í upphafi óundirbúinnar fyrirspurnar til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á þingi miðvikudaginn 8. maí sagði Kristrún Frostadóttir:

„Það eru efnahagsmálin númer eitt, tvö og þrjú sem þessi ríkisstjórn hefur sett á hvolf og arfleifð hennar verður því miður óstjórn og óstöðugleiki í efnahagsmálum. Þess vegna furðaði fólkið sig í landinu á því að það væru ekki boðaðar neinar breytingar í raun við stjórn efnahagsmála ríkisstjórnarinnar við síðustu stólaskipti...“

Eitt er að hefja ræðu á að fella svo vitlausan dóm um stöðu efnahagsmála hér en annað að láta eins og þar sé talað fyrir munn fólksins í landinu. Hvar hefur það lýst þeirri undrun sem þarna er nefnd?

Hún kemur ekki fram í nýlegu áliti fjármálaráðs um fjárlagaáætlun ríkisstjórnarinnar 2025 til 2029. Þar segir þvert á móti að staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála sé góð í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Undanfarna áratugi hafi fjölbreytni aukist til muna í íslensku efnahagslífi og viðbragðsþróttur þess við áföllum aukist. Kaupmáttur hafi vaxið, atvinnuleysi sé lágt, jöfnuður mikill og lífskjör almennt með því besta sem þekkist meðal nágrannaþjóða okkar. Skuldir hins opinbera séu ekki mjög háar í alþjóðlegum samanburði en vaxtakostnaður sé þó hár. Þrátt fyrir að efnahagslífið standi nú á fleiri stoðum en áður sé það enn sveiflukennt.

1438711Kristrún Frostadóttir og Bjarni Benediktsson (mynd: mbl.is).

Það er hreinlega upplýsingafölsun af verstu gerð að ríkisstjórnin hafi sett efnahagsmálin „á hvolf“. Að flokksformaður sem hreykir sér gjarnan af þekkingu á fjár- og efnahagsmálum tali á þann veg sem Kristrún Frostadóttir gerði og beri undrun „fólksins í landinu“ fyrir sig sýnir enn á ný að hátt getur glumið í tómri tunnu. Og svo segir Kristrún: „Samfylkingin er flokkur ábyrgra ríkisfjármála og efnahagslegs stöðugleika.“

Séu þessi orð heimfærð upp á fjármálastjórnina þar sem Samfylkingin hefur haft undirtökin undanfarna áratugi, í Reykjavíkurborg, sjá menn vel hve lítið hald er í þeim.

Bjarni Benediktsson svaraði formanni Samfylkingarinnar kröftuglega. Á alla helstu mælikvarða efnahagsmála sem raunverulega skiptu máli væri staðan hér „gríðarlega sterk“ og hefði „líklega aldrei verið sterkari, gjaldeyrisforðinn aldrei stærri, jákvæð staða íslenska þjóðarbúsins í útlöndum aldrei meiri“. Þannig að það væri allt saman rangt sem Kristrún Frostadóttir fullyrti.