3.5.2024 10:09

Afslættir Dags B. og Efstaleitið

Nú er þess beðið hvað meirihluti borgarráðs undir formennsku Dags B. ákveður að gera við tillögu sjálfstæðismanna um að leyndinni verði svipt af bensínstöðvamáli borgarstjórans.

Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur var vikið úr rannsóknarteymi Kveiks í ríkissjónvarpinu vegna efnis sem hún hafði í vinnslu og sneri að ráðstöfun Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. Eggertssonar, þáv. borgarstjóra Samfylkingarinnar, á lóðum eldneytisstöðva.

Mikil leynd hefur hvílt yfir samningum borgarstjórans við lóðarhafa. Í gær (2. maí) lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði fram tillögu um að innri endurskoðun borgarinnar yrði falið að gera úttekt á aðdraganda og fyrirkomulagi samningaviðræðna Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðvanna. Lagt yrði mat á hvort málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki samningunum og hvort hagsmunir borgarinnar hefðu verið nægilega tryggðir.

Á sama borgarráðsfundi óskuðu sjálfstæðismenn eftir upplýsingum um „hvers kyns samningssamband, viðskiptahagsmuni eða aðra fjárhagslega hagsmuni“ sem liggi eða hafi legið á milli Reykjavíkurborgar og ríkisútvarpsins, segir visir.is í gær.

1385407Bensínstöðin við Ægisíðu – miklar deilur eru um hvað verður á þessu svæði (mynd:mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Í samtali við visi.is staðfestir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, að fyrirspurnin tengist nýlegum fréttum um brottvikningu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur út Kveik.

Nefnir Hildur að ýmsir telji „óþægileg hagsmunatengsl“ þarna á ferðinni milli borgarinnar og ríkisútvarpsins og eðlilegt sé að fara í saumana á því. Leggja verði allt á borðið og taka síðan afstöðu með vísan til þess.

Dagur B. Eggertsson er nú formaður borgarráðs og við visi.is segist hann „klóra sér í höfðinu“ vegna fyrirspurnar sjálfstæðismanna.

Þegar braggamálið í Nauthólsvík var á döfinni fór Dagur B. undan í flæmingi í fyrstu. Síðan eftir að Svanhildur Bogadóttir, þáv. borgarskjalavörður, kom á framfæri gögnum sem sýndu aðra hlið á braggabruðlinu en borgarstjóri vildi að birtist var ákveðið að leggja niður borgarskjalasafnið og nýlega hvarf Svanhildur úr starfi sínu.

Nú er þess beðið hvað meirihluti borgarráðs undir formennsku Dags B. ákveður að gera við tillögu sjálfstæðismanna um að leyndinni verði svipt af bensínstöðvamáli borgarstjórans.

Í samtali við mbl.is 2. maí segir Hildur Björnsdóttir að í viðræðum sínum við lóðarhafa eldsneytisstöðvanna hafi Dagur boðið „óeðlileg kjör“ sem hefðu ekki áður sést og án skiljanlegra ástæðna. Um sé að ræða ríflega 6 hektara af landi og þurfi olíufélög hvorki að greiða innviðagjald né byggingaréttargjald og þannig hafi margir milljarðar verið gefnir í afslátt.

Dagur B. hafnar því ekki að hann hafi samið um afslætti í þessum viðskiptum en segir á visi.is: „Þessi viðbótargjöld eru miklu lægri en svo.“ Hann hafi sem sagt ekki veitt margra milljarða afslátt.

Í umræðum um mál Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur var vakið máls á að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kom í Efstaleiti beint úr ráðhúsinu sem borgarritari Dags B. og að ríkisútvarpið ætti mikið undir vegna fjárhagslegra tengsla við Reykjavíkurborg um rekstur útvarpshússins í Efstaleiti.