1.2.2023 9:19

Þingmaður gegn sáttasemjara

Það verður forvitnilegt að sjá hve langt Efling gengur með lagaþrætum til útiloka að Sólveig Anna þurfi að axla ábyrgð á samningi við viðræðuborðið.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, tók sér stöðu popúlistans þriðjudaginn 31. janúar þegar hann sótti að forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur í reiðikasti yfir miðlunartillögu sáttasemjara.

Sagði þingmaðurinn tillögu sáttasemjara „ofbeldi“. Hann taldi að ekki hefði mátt leggja hana fram fyrr en félagsmenn Eflingar hefðu greitt atkvæði um verkfallsboðun. Sáttasemjari hefði ekki ráðgast við samningsaðila. Hann legði fram tillögu sem samninganefnd Eflingar hefði hafnað. Sáttasemjari græfi undan lýðræðislegu umboði stjórnar og samninganefndar Eflingar.

Þessar skoðanir sínar setti þingmaðurinn fram í spurnarformi til forsætisráðherra með kröfu um að hún samþykkti þær. Það væri rangt hjá ráðherranum að segja miðlunartillöguna „standast skoðun“.

1393883Katrín Jakobsdóttir og Eyjólfur Ármannsson (samsett mynd mbl.is).

Forsætisráðherra svaraði og minnti á að ríkissáttasemjari hefði leitt sáttaumleitanir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins frá 7. desember 2022. Hann tæki sjálfstæða ákvörðun um að nýta heimild sína til að leggja fram miðlunartillögu. Sagðist Katrín hafa skoðað málið út frá sinni bestu getu og hún sæi ekki „betur en að sáttasemjari [væri] innan þeirra heimilda sem er að finna í lögum“.

Ráðherrann lýsti með öðrum orðum skoðun sinni á ákvörðun sáttasemjara en tók enga afstöðu til málstaðar deiluaðila, taldi eins og áður „alltaf best ef aðilar [gætu] leyst málin sín á milli við samningaborðið“. Sagði hún það „algjörlega fráleita túlkun“ sem fram hefði komið hjá Eyjólfi að hún tæki afstöðu til efnisatriða í kjaradeilunni.

Þegar þessi afstaða forsætisráðherra lá fyrir beindi Eyjólfur spjóti sínu að félags- og vinnumarkaðsráðherra sem er með stjórnsýslukæru Eflingar til afgreiðslu en þar er þess krafist að miðlunartillaga sáttasemjara sé lýst ógild. Þingmaðurinn sagði:

„Það er klárt mál að félags- og vinnumarkaðsráðherra getur ekki sagt, hann á mjög erfitt með að segja það, að miðlunartillagan standist ekki skoðun þegar sjálfur forsætisráðherra er búinn að segja að hún standist skoðun.“

Með þessum orðum opnar lögfræðingurinn Eyjólfur Ármannsson þá þrætubókarleið fyrir Eflingu, að fara með niðurstöðu félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir dómstóla til að fá úr því skorið hvort afstaða forsætisráðherra til einhvers máls geri ráðherra í ríkisstjórninni vanhæfan til að taka afstöðu til stjórnsýslukæru.

Eyjólfur skautar fram hjá því að sérhver ráðherra er ábyrgur fyrir sínum málaflokki. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald þar sem hendur eins ráðherra til embættisverka eru bundnar með bókunum, samþykktum eða yfirlýsingum annarra ráðherra, jafnvel ekki forsætisráðherra.

Forsætisráðherra sagði að þau Eyjólfur skildu „stjórnskipan landsins með gerólíkum hætti“.

Það verður forvitnilegt að sjá hve langt Efling gengur með lagaþrætum til útiloka að Sólveig Anna þurfi að axla ábyrgð á samningi við viðræðuborðið. Henni er sú byrði óbærileg – þar er undirrótin.