24.6.2022 10:12

Pólitísk uppgjöf Pútins

Eina sem stöðvar Pútin er hervald og fælingarmáttur þess sem hann kann að ágirnast. Vegna þess hve hann er óútreiknanlegur verða allir nágrannar hans að gæta sín,

Í fyrsta sinn í sögunni hefur þjóð í stríði fengið stöðu umsækjanda um aðild að Evrópusambandinu. Leiðtogaráð ESB samþykkti eftir stuttar umræður fimmtudaginn 23. júní að veita Úkraínu stöðu umsóknarríkis og einnig Moldovu sem er að hluta hernumin af Rússum. Stjórn Georgíu sem deilir landi með Rússum vill einnig stöðu ESB-umsóknarríkis. Afgreiðslunni var skotið á frest á meðan nokkrum skilyrðum ESB yrði fullnægt.

Undir árslok 2013 þegar efnt var til fjöldafunda í Kyív til stuðnings sérstökum samningi við ESB snerist Moskvuvaldið undir forystu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta gegn öllum áformum um formleg tengsl Úkraínu og ESB. Pólitíska togstreitan um þetta leiddi til blóðugra átaka á Maidan-torginu í Kyív í ársbyrjun 2014. Rússavinirnir í stjórn Úkraínu hrökkluðust frá völdum. Þá hófst atburðarás sem breyttist í blóðugt innrásarstríð Rússa fyrir réttum fjórum mánuðum og enginn veit hvernig endar.

Innrásin opnaði Úkraínustjórn dyr ESB sem annars hefðu að allra mati verið henni lokaðar árum saman. Ákvörðun leiðtogaráðs ESB er pólitískt áfall fyrir Pútin sem stendur enn blóðugur upp fyrir axlir og hefur í hótunum um enn meiri hernaðarlega hörku.

Https-legacy-altinge-yv1t8pwyghmwsfv6p5n9Olaf Scholz Þýskalanskanslari, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti í Kyív 16. júní 2022.

Þrjú nágrannaríki Rússlands hafa fengið viðurkenningu af hálfu ríkisstjórna 27 ESB-ríkja um að þau séu öll velkomin í hóp þeirra að uppfylltum skilyrðum í ferli sem kann að taka mörg ár. Fyrsta formlega skrefið hefur þó verið stigið í áttina frá Rússlandi Pútins og ógnarstjórn hans.

Eftir að leiðtogaráð ESB tók þessa ákvörðun um ríkin þrjú hófust deilur innan þess um hvað gera skuli við sex Balkanríki sem vilja komast inn í sambandið og hafa lengi beðið að fá þaðan formlega viðurkenningu. ESB hefur ekki stækkað frá því að Króatía fékk aðild árið 2013 (draumur ESB-sinna hér var að Ísland ætti samleið með Króatíu inn í ESB).

Balkanríkin verða enn að bíða. Innan ESB er til skoðunar hvort formbinda beri nýja skipan á samstarfi við nágrannaríki ESB sem auðveldara sé að tengjast. ESB-aðildarumsókn verði ekki forsenda samstarfsins, um stjórnmálasamstarf verði að ræða.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti telur að ekki eigi aðeins að líta til nágrannalanda með fulla ESB-aðild þeirra í huga heldur eigi að móta aðra samstarfsleið sem hvorki sé eins tímafrek og aðildarleiðin né magni stækkunarþreytu innan ESB.

Eftir að Finnar og Svíar sóttu um aðild að NATO brugðust Vladimir Pútin og utanríkisráðherra hans Sergeij Lavrov við með þeim orðum að þetta breytti í raun engu. Þegar Pútin sá hvert stefndi í samskiptum Úkraínustjórnar og ESB sagði hann á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg 17. júni 2022 að hann væri ekki andvígur samlögun (e. integration) Úkraínu að ESB. „Við viljum ekki að Úkraína fari í NATO en höfum ekkert á móti Evrópusambandinu.“ (!)

Eina sem stöðvar Pútin er hervald og fælingarmáttur þess sem hann kann að ágirnast. Vegna þess hve hann er óútreiknanlegur verða allir nágrannar hans að gæta sín, líka við sem erum úti í Norður-Atlantshafi. Rússneski Norðurflotinn kann að verða haldreipi Pútins vilji hann sýna mátt sinn.