29.11.2021 9:27

Stjórnarskrá jarðtengd - bútasaumað stjórnarráð

Fyrir utan að rekja megi stjórnarskrárdeilur undanfarinna ára til hrunsins má einnig benda á ákvarðanir vegna þess sem upphaf hringlandaháttar með stjórnarmálefni við myndun ríkisstjórnar.

Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur var skipað á ríkisráðsfundi í gær (28. nóvember). Katrín hafði þá verið forsætisráðherra í tæp fjögur, fyrra ráðuneyti hennar kom til sögunnar 30. nóvember árið 2017. Að loknu fyrsta kjörtímabili þriggja flokka stjórnar heldur hún áfram með öflugra umboði kjósenda. Er ráðherrum óskað farsældar í mikilvægum störfum.

Stjórnarsáttmálinn er langur, 57 bls. Það er dæmigert glamur stjórnarandstæðinga að segja hann miklar umbúðir um ekkert efni. Þar er tekið á ýmsum ágreiningsmálum og bent á lausnir auk þess sem öðrum er einfaldlega ýtt til hliðar, eins og „nýju stjórnarskránni“ sem hefur verið mara á stjórnmálamönnum og þjóðinni frá því að Jóhanna Sigurðardóttir hratt óskapnaðinum af stað fyrir tæpum 13 árum. Það hefði verið öfugmæli í ljósi kosningaúrslitanna að gera annað en segir undir lok stjórnarsáttmálans:

„Ríkisstjórnin mun setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði. Efnt verður til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar. Framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verður metið í framhaldinu.“

Á liðnu kjörtímabili leiddi Katrín Jakobsdóttir viðræður leiðtoga allra stjórnmálaflokka um stjórnarskrármálið. Þegar tækifærið til að komast að niðurstöðu gafst undir lok kjörtímabilsins sögðu Píratar og Samfylking skilið við aðra í nafni „nýju stjórnarskrárinnar“ og tilraun Katrínar rann út í sandinn. Aðskilnaðarsinnarnir reyndu síðan að kenna hinum sem eftir sátu um að enginn árangur náðist. Það er álíka blekking og að kenna þeim sem snúast gegn eyðileggingarstefnu Pútíns í Úkraínu um að Pútin bannaði innflutning á fiskafurðum frá Íslandi.

A2021-11-29_w272Fyrir utan að rekja megi stjórnarskrárdeilur undanfarinna ára til hrunsins má einnig benda á ákvarðanir vegna þess sem upphaf hringlandaháttar með stjórnarmálefni við myndun ríkisstjórnar.

Af einhverjum furðulegum ástæðum komust stjórnmálamenn að þeirri niðurstöðu að umturna ætti stjórnarráðinu vegna hrunsins. Þess vegna er ekki aðeins samið um markmið og leiðir að þeím þegar ný ríkisstjórn fæðist heldur einnig vistun einstakra málaflokka hjá ráðherrum eftir flokkslit þeirra. Rök sérfræðinga voru að með þessu yrði stuðlað að meiri „fagmennsku“ í stjórnsýslunni. Kannski töldu þeir að tilfærsla málaflokka eftir duttlungum flokka og ráðherra yki vald embættismanna? Í reynd er svo ekki. Í mörgum tilvikum vita þeir ekki frekar en aðrir hvaðan á sig stendur veðrið. Málaflokkar gjalda þess síðan hve lengi sár gróa eftir að rætur slitna.

Menntmálamálaráðuneytinu hefur verið splundrað í þrjá hluta. Aftur er komið innanríkisráðuneyti í stað dómsmálaráðuneytis. Innanríkisráðuneytið stendur nú fyrir allt annað en um tíma áður. Hluti gamla innanríkisráðuneytisins var fluttur í samgönguráðuneytið sem nú heitir sérkennilegu nafni, innviðaráðuneyti.

Hverju þessi bútasaumur þjónar er óútskýrt. Hann er ekki í anda gagnsæis og vinsamlegs viðmóts gagnvart þeim sem leita til stjórnarráðsins. Þá eykur hann líkur á að mál týnist í kerfinu og enginn viti hvar lokaábyrgðin liggur.

Uppfært: Það sem segir hér að ofan um innanríkisráðuneyti var haft eftir fjölmiðli. Í forsetaúrskurði um verkefni ráðuneyta er enn talað um dómsmálaráðuneyti og er það því rétt opinbert heiti ráðuneytisins. Á hinn bóginn ber ráðherrann starfsheitið innanríkisráðherra sem sýnir í hvert óefni stefnir með þessu hringli.