28.11.2021 11:38

Ríkisstjórn fæðist

Vegna þess hve stjórnarflokkarnir komu vel frá kosningunum veiktist stjórnarandstaðan að sama skapi. Bakland hennar er lítið.

Nýtt ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur verður kynnt til sögunnar í dag, sunnudag 28. nóvember. Það lá fyrir þegar gengið var til kosninga 25. september að fengju stjórnarflokkarnir til þess styrk á þingi myndu þeir halda áfram samstarfi sínu að þeim loknum. Þingstyrkur stjórnarflokkanna jókst, að baki henni eru 38 þingmenn. Þingmönnum Framsóknarflokksins fjölgaði um fimm, VG tapaði þremur þingmönnum, sjálfstæðismenn fengu einn nýjan liðsmann að kjördegi loknum frá Miðflokknum.

Þótt framsóknarmenn eigi nú 13 þingmenn í stað átta á síðast kjörtímabili er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti stjórnarflokkurinn en styrkur VG liggur í vinsældum Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra.

Styrkleiki flokkanna birtist í fjölda ráðherra þeirra: VG verður áfram með þrjá, Framsóknarflokkurinn fær fjóra ráðherra í stað þriggja og Sjálfstæðisflokkur fimm eins og áður en forseta alþingis að auki. Á síðasta þingi var forsetaembættið hjá VG, það er reiknað sem ráðherraígildi í þessu valdadæmi.

1309512Forystumenn stjórnarflokkanna: Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson (mynd:mbl.is).

Auðvelt er að álykta að í ráðherrastólum verði formenn og varaformenn stjórnarflokkanna, þá hafi ráðherrar í fráfarandi ráðuneyti forskot sem forystumenn í kjördæmum sínum. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf ekki kost á sér. Hann kom úr NA-kjördæmi. Sjálfstæðismenn töpuðu fylgi þar en eru sterkir í Suðurkjördæmi.

Einn nýr bætist í ráðherrahóp Sjálfstæðisflokks annars vegar og Framsóknarflokks hins vegar. Á þessari morgunstund hittast þingflokkar eftir formenn flokkanna hafa átt trúnaðarsamtöl við einstaka þingmenn um lokaákvörðun sína um þessi mál. Þar kemur einnig til álita val á mönnum til formennsku í þingflokkum og þingnefndum en allt eru þetta mikil áhrifastörf innan vébanda alþingis og þess vegna í þjóðlífinu öllu.

Fróðlegt verður að sjá hvort stjórnarflokkarnir ákveða að stjórnarandstaðan fái formennsku í einhverjum þingnefndum. Mál hafa þróast á þann veg undanfarin ár en ekki endilega gefist vel miðað þá áráttu nefndarformanna úr röðum stjórnarandstæðinga að nota aðstöðu sína til upphlaupa sem eru tilefnislaus nema til þess eins að fá rými í fjölmiðlum. Þegar til lengdar lætur rýra upphlaup af þessu tagi traust til alþingis.

Vegna þess hve stjórnarflokkarnir komu vel frá kosningunum veiktist stjórnarandstaðan að sama skapi. Bakland hennar er lítið. Þrír stjórnarandstöðuflokkar eiga sex þingmenn hver, Samfylking, Flokkur fólksins og Píratar, Viðreisn á fimm og Miðflokkurinn tvo. Þetta verður seint talin burðug stjórnarandstaða. Píratar eru og verða óútreiknanlegir. Samfylkingin hefur gengið sér til húðar miðað við háleit markmið við stofnun hennar árið 2000. Mesta lífsmarkið er með Flokki fólksins. Erfitt er að átta sig á fyrir hvað Viðreisn stendur, afstaða þingmanna hennar í kjörbréfamálinu var aumkunarverð. Miðflokkurinn verður engum til vandræða nema þingmönnunum tveimur sem í þingflokki hans sitja með öllu áhrifalausir.

Fari svo fram sem horfir verður festa í stjórnmálunum næstu fjögur ár, þar er þó aldrei á vísan að róa.