17.4.2021 12:08

Namibíuforseti um erlenda fjárfesta

Geingob hvatti stjórnendur til að beita sér gegn neikvæðum umræðum um erlenda fjárfesta sem keyptu land í Namibíu eða fjárfestu þar.

Athygli okkar Íslendinga hefur undanfarin misseri verið beint til Namibíu með fiskveiðar og starfsemi Samherja þar að leiðarljósi. Haldið er að okkur þeirri skoðun að starfsmenn Samherja hafi á einhvern hátt skapað sér sérstöðu meðal hvítra fjárfesta eða atvinnurekenda í landinu.

Mál tengt Samherja er nú til rannsóknar í Namibíu og snýr að heimamönnum sem talið er að hafi misnotað aðstöðu sína í viðskiptum við fyrirtæki Samherja. Málið hefur á sér stórpólitíska hlið í landinu þar sem Samherji er frekar leiksoppur en gerandi.

HagegeingobstateHage Geingob, forseti Namibíu.

Nýlega heimsótti Hage Geingob, forseti Namibíu, nýstofnaða fjárfestingamiðstöð Namibíu, Namibia Investment Promotion and Development Board (NIPDB). Í blaðinu The Namibian er sagt frá heimsókninni og ræðu sem forsetinn flutti þar um misskiptingu í landinu sem rekja mætti til apartheid, aðskilnaðarstefnunnar sem hvítir menn fylgdu og miðaði að því að kúga og hagnast á blökkumönnum. Vill forsetinn að hvítir menn deili auðæfum sínum með blökkumönnum. „Við segjum ekki að hvítu mennirnir verði að afsala sér öllu en við verðum að deila [auðnum] með okkur. Ef við gerum það ekki þá munu þeir [sem eiga ekkert] taka hann frá okkur með valdi og eyðileggja allt,“ sagði forsetinn. Hann tók jafnframt fram að krafan um dreifingu auðs næði ekki aðeins til hvítra heldur einnig svartra efnamanna.

Um 80% Namibíumanna býr við fátækt, innan við 5% af 2,4 milljón Namibíumönnum eru hvítir og teljast þeir allir auðugir.

Geingob hvatti stjórnendur nýstofnuðu fjárfestingamiðstöðvarinnar til að beita sér gegn neikvæðum umræðum um erlenda fjárfesta sem keyptu land í Namibíu eða fjárfestu þar. Kenna yrði Namibíumönnum að koma fram við þetta fólk. Það væri tekið eftir því hvað sagt væri um þessa útlendinga, neikvæðni og þjóðremba fældi þá frá fjárfestingaráformum.

Forsetinn sagði sögu af erlendum milljarðamæringi sem ætlaði að kaupa land af einstaklingi í Namibíu, ekki af ríkinum. Hann hefði nötrað og skolfið vegna þess sem sagt var um hann.

Blaðið segir að þarna hafi forsetinn átt við Alberto Baillères, milljarðamæring frá Mexíkó. Forsetinn ætlaði að hitta hann á stuttum fundi en sagðist hafa hitt mann sem skalf á beinunum vegna árása á sig og spurt: Finnst þér að ég verði að koma hingað? „Ég varð að róa hann og segja, já, þetta er lýðræðisríki, fólkið hefur frelsi til að tala en við búum við lög og ef þú eignast [búgarðinn] löglega nýtur þú verndar laganna. Hann ætlar að koma. Hann skrifaði mér bréf, glaður í bragði, og hann ætlar að skapa störf, vinna að verðmætaaukningu,“ sagði forseti Namibíu.

Geingob sagði Namibíumenn of neikvæða í garð hugsanlegra fjárfesta: „Ætla þeir að flytja búgarða héðan til Rússlands eða Mexíkó? Þetta er okkar jörð. Þeir eru að nýta hana, skapa störf. Brjóti þeir lögin tökum við á þeim. Sýnum ekki hugsanlegum fjárfestum neikvæðni. Við erum of neikvæð,“ sagði forsetinn.

Sé mál Samherja sett inn í þennan boðskap forseta Namibíu er ekki víst að það þyki sambærilegt hneyksli þar og fréttamenn ríkisútvarpsins segja.