19.11.2017 11:58

Reynt að hvítþvo borgarstjóra í skólpmálinu

Í fréttum af þessu áliti borgarlögmanns er markvisst þagað um mikilvægi pólitísku og í raun lagalegu ábyrgðarinnar sem felst í því að vísvitandi var þagað um mengunarslysið.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, nú óháður borgarfulltrúi, lagði fram fyrirspurn í borgarráði 20. júlí um ábyrgð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra vegna mengunarslyss við strönd Reykjavíkurborgar vegna bilunar í skólpdælustöð Veitna við Faxaskjól í sumar. Borgarlögmaður svaraði fyrirspurninni í borgarráði fimmtudaginn 16. nóvember og sagði borgarstjóra ekki bera neina lagalega ábyrgð hvorki á biluninni né á störfum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Í fyrirspurn Sveinbjargar Birnu sagði meðal annars:

„Óskað er eftir áliti borgarlögmanns og innri endurskoðanda á því hvort að a) eigendastefna OR firri borgarstjóra að einhverju leyti ábyrgð sína á vanrækslu og því tjóni sem bilun í skólpdælistöðinni við Faxaskjól hefur valdið, b) hefur það áhrif að Veitur er dótturfélag OR og c) ber borgarstjóri ekki ábyrgð á heilbrigðisnefnd Reykjavíkur?“

Samandregin er niðurstaða Ebbu Schram borgarlögmanns þessi: „Borgarstjóri Reykjavíkur ber ekki ábyrgð á ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi sem rekja má til Orkuveitu Reykjavíkur, Veitna ohf. eða heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Ábyrgð borgarstjóra á framangreindum aðilum getur einungis verið pólitísk sem oddviti meirihlutans í Reykjavík.“

Í samandregnu niðurstöðunni sem lögð var fyrir borgarráð fimmtudaginn 16. nóvember sleppir borgarlögmaður orðinu „lagalega“ fyrir framan orðið ábyrgð. Þetta er eftirtektarvert því að lögmaðurinn dregur skil á milli „lagalegrar“ og „pólitískrar“ ábyrgðar sem hann gefur til kynna að borgarstjóri beri sem oddviti meirihlutans í Reykjavík.

Fyrirsögn fréttar um þetta ruv.is er: Borgarstjóri ekki ábyrgur fyrir skólpleka. Í fréttum af þessu áliti borgarlögmanns er markvisst þagað um mikilvægi pólitísku og í raun lagalegu ábyrgðarinnar sem felst í því að vísvitandi var þagað um mengunarslysið og borgarstjóri kaus, þegar loksins náðist í hann vegna málsins, að ræða það eins og áhorfandi eða skýrandi frekar en að axla þá ábyrgð sem honum bar sem borgarstjóri.

Faxaskjol_og_skeljanes_loftmynd_002

Jafnt borgarlögmaður og fjölmiðlar hafa til þessa leitast við að nálgast þetta mál frá þrengsta hugsanlega sjónarhorni til að gera sem minnst úr hlut borgarstjórans.

Í Staksteinum Morgunblaðsins er þessum spurningum varpað fram laugardaginn 18. nóvember:

„En til hvers er borgarstjóri ef engum í borgarkerfinu dettur í hug að upplýsa hann um stórkostlegt mengunarslys?

Og hvers vegna er hann búinn að koma kerfinu í það horf að hann beri ekki nokkra ábyrgð á því sem gerist í borginni?

Er ekki tímabært að breyta þessu?“

Þessum spurningum ber auðvitað að svara á pólitískum vettvangi. Borgarfulltrúar allra flokka verða að gera grein fyrir þróun sem leitt hefur til þess að borgarbúar fá þau boð að stjórnkerfi borgarinnar sé orðið svo flókið að leita þurfi skýringa í borgarráði á því þegar mikið mengunarslys verður í borginni hjá hverjum ábyrgðin liggur. Sé gagnályktað hlýtur borgarstjóri og meirihluti hans nú að láta þá sæta ábyrgð sem hana bera lagalega að áliti borgarlögmanns.