19.10.2017 14:03

Erlend íhlutun í kosningabaráttuna

Að sjálfsögðu getur Harlem Désir ekki gefið íslenskum dómstólum fyrirmæli, Mannréttindadómstóll Evópu í Strassborg getur ekki einu sinni gert það.

Fyrst var það blaðamaður hjá The Guardian í London sem var skjól Stundarinnar til að birta úr gögnunum sem nú hvílir á lögbann. Síðan kom yfirlýsing frá fulltrúa ÖSE (Öryggissamvinnustofnunar Evrópu) um efni fjölmiðla, Harlem Désir, miðvikudaginn 18. október. Hann sagði:

„Séu lagðar hömlur á birtingu efnis verður að ganga fram af varúð og bannið að ná til mjög sérgreindra tilvika. Það er lögmætt markmið að vernda persónuupplýsingar en beita ber þröngri túlkun við gæslu þeirra og hafa hliðsjón af viðurkenndum kröfum um tjáningarfrelsi. Almennt bann við öllum fréttaflutningi um þetta efni er óviðunandi og grefur undan frelsi fjölmiðla og rétti almennings til upplýsinga. [...]

Ég hvet íslensk yfirvöld til að forðast að beita sér fyrir frekari aðgerðum til að banna fréttaflutning í tengslum við þetta mál og aflétta bönnum sem þegar eru í gildi.“

Harmel Désir

Harlem Désir var háttsettur í flokki franskra sósíalista sem galt afhroð í þingkosningunum í júní 2017. Désir var aðalritari flokksins í tvö ár en síðan Evrópumálaráðherra frá 2014 til 2017. Hann hóf störf hjá ÖSE í júlí 2017.

Vegna afskipta Désirs af gangi mála innan réttarkerfisins hér á landi spyr Morgunblaðið í morgun í Staksteinum:

„Telur evrópskur skrifstofumaður að hann sé bær til að gefa þeim [íslenskum dómstólum] fyrirmæli? Íslensk stjórnvöld hafa ekki slíka heimild. Gerðu þau það gæti skrifstofumaðurinn og allir aðrir réttilega fordæmt þá ósvinnu.

Væri ekki gustuk að benda Désir á þetta, fremur en að etja honum á foraðið?“

Að sjálfsögðu getur Harlem Désir ekki gefið íslenskum dómstólum fyrirmæli, Mannréttindadómstóll Evópu í Strassborg getur ekki einu sinni gert það. Íslenska ríkið heldur úti sérstakri sendiskrifstofu í Vínarborg gagnvart ÖSE. Sendiherrann þar ætti að leiðbeina Désir. Þótt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sitji í ÖSE-stöðu sinni í Varsjá ætti hún þó að geta leiðbeint þessum starfsbróður sínum í Vín. Að hann skuli rjúka af stað með afskipti af íslenska dómskerfinu en halda að hann sé að ræða við almenn stjórnvöld er til marks um vinnubrögð sem veikja aðeins traust í garð ÖSE.

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, sat fyrir svörum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis fimmtudaginn 19. október vegna lögbannsins á birtingu gagnanna í Stundinni. Hann upplýsti að Harlem Désir hefði ekki sent ofangreinda yfirlýsingu til embættis síns. Hann vissi ekkert um efni hennar. Blaðamaður mbl.is sem sat nefndarfundinn segir:

„Við þetta svar var Jón Þór [Ólafsson þingmaður Pírata] afar ósáttur, enda hefði málið verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn. Jón Þór fann að því að sýslumaðurinn hefði ekki kynnt sér efni málsins sem hann væri kominn til að ræða á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Eftir nokkur orðaskipti tók fundarstjóri orðið af Jóni Þór.“

Þingnefndarfundinum lauk klukkan 12.52. Var sagt að hann hefði að minnsta kosti staðið tveimur stundum lengur en ætlað var. Helst þótti fréttnæmt að Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yfirgaf fundinn til að fara á annan með þeim orðum að hann nennti ekki að „sitja undir þessu bulli“ eftir að Sigríður Rut Júlíusson, lögmaður Stundarinnar, hafði sagt að 142 lagaákvæði um þagnarskyldu mættu sín einskis gagnvart „tjáningarfrelsi blaðamanna“.

Að nefndin kom saman til að ræða málefni sem er á valdsviði dómstólanna sýnir að fyrir þeim með kröfðust fundarins vakti það eitt að reyna að gera lögbannsmálið að flokkspólitísku máli. Þingmenn Pírata og VG óskuðu eftir fundi í nefndinni og Jón Steindór Valdimarsson, nefndarformaður þingmaður Viðreisnar, sagði:

„Mér finnst alveg meira en full ástæða til að ræða þessi mál sem að varða almannahagsmuni. Það er útgangspunktur minn að það sé nauðsynlegt að ræða þetta og átta sig á því hvað er að gerast og hvort það þarf að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að svona komi upp aftur með þessum hætti.“

Þegar þetta er skrifað hefur ekkert verið sagt frá hvað nefndarformaðurinn telur að gera þurfi „til að koma í veg fyrir að svona komi upp aftur með þessum hætti“. Var það nokkurn tíma markmiðið? Var ekki frekar stefnt að því að slá keilur í kosningabaráttunni? Það mistókst greinilega.

Hitt er síðan tímanna tákn vegna alþjóðavæðingarinnar að blaðamaður frá The Guardian og fjölmiðlavörður ÖSE blanda sér á beinan hátt í kosningabaráttuna og leggjast á árárnar gegn forsætisráðherra og flokki hans eins viðbrögð þingmanna og álitsgjafa sýna.