24.9.2017 10:30

Varðstaða um frjálslynda, lýðræðislega stjórnarhætti

Í þessu efni er ekkert gefið heldur verða þjóðir að standa á verði vilji þær halda í opna, frjálslynda, lýðræðislega stjórnarhætti. Unnt er að grafa undan þeim á margan hátt.

Eftir að Berlínarmúrinn hrundi í nóvember 1989 var boðað að nú hefði þeim kafla sögunnar lokið þar sem deilt yrði um hvort frekar ætti að fylgja frjálslyndri lýðræðisstefnu eða kommúnískri miðstjórn. Stjórnarhættir í heiminum yrðu einsleitir, frjálslynt stjórnarfyrirkomulag reist á lýðræði hefði sigrað.

Nú tæpum 30 árum síðar birta stjórnmála- og þjóðfélagsrýnendur greinar og bækur þar sem þeir draga í efa að sigur frjálslynds lýðræðis sé endanlega tryggður. Þess sjáist merki í Evrópu, til dæmis í Tyrklandi og Ungverjalandi, að annars konar stjórnarfar festi rætur. Þá sé Rússland dæmi um ríki þar sem frjálslynt lýðræði fái ekki þrifist. Nú sé jafnvel spurning hvert stefni í Bandaríkjunum undir duttlungafullri stjórn Donalds Trumps.

Í Kína hefur alráður kommúnistaflokkur hag af því að leyfa markaðshagkerfi að þróast innan marka sem hann setur og flokkurinn telur sig jafnframt hafa hag af því að veita stjórnendum versta alræðisríkis samtímans, Norður-Kóreu, skjól. Í Venezúela hefur sósíalísk einræðisstjórn getið af sér fátækt og algjört hrun þjóðfélagsgerðarinnar.

Í þessu efni er ekkert gefið heldur verða þjóðir að standa á verði vilji þær halda í opna, frjálslynda, lýðræðislega stjórnarhætti. Unnt er að grafa undan þeim á margan hátt meðal annars af kjörnum fulltrúum sem virða ekki grunnreglur lýðræðislegra stjórnarhátta, lögmæta stjórnsýslu eða stofnanir sem eiga að tryggja framkvæmd hennar.

Umræður hér á landi í aðdraganda þingkosninganna 28. október einkennast meðal annars af þessu í þeim lágkúrulega búningi að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins vilja beina gagnrýni á flokkinn í þann farveg að hann sé skjól fyrir barnaníðinga. Aldrei hefur verið lagst jafn lágt í kosningabaráttu hér og er þá langt til jafnað.

Skýrt dæmi um þennan málflutning er grein eftir Sif Sigmarsdóttur, rithöfund í Bretlandi, sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 23. september og hampað er af mörgum í netheimum og þar á meðal Kvennablaðinu sem gefið er út á netinu til stuðnings andstæðingum Sjálfstæðisflokksins.

Öfgafullur málflutningur af þessu tagi og tilraunir til að gera tortryggilegt að dómsmálaráðherra skyldi vísa fréttastofu ríkisútvarpsins á úrskurðarnefnd um upplýsingamál þegar hún bað um gögn varðandi uppreist æru er ekki annað en krafa um að hafa lögmætar stofnanir að engu og hundsa góða stjórnsýsluhætti að geðþótta. Sama viðhorf birtist hér í útlendingamálum þegar alþingismenn telja sér til framdráttar að flytja frumvarp til laga í því skyni að hundsa lögmætar ákvarðanir útlendingastofnunar.

Vonandi tekst andstæðingum Sjálfstæðisflokksins ekki að draga stjórnmálaumræður niður í svaðið þar sem þeim líður best þegar til stjórnmálaátaka kemur. Takist það reisa þeir vörðu á leiðinni frá frjálslyndum lýðræðislegum stjórnarháttum hér á landi.