21.8.2017 10:35

Varðstaða um gamla tækni

Að standa vörð um ríkisrekstur á útvarpsstöð er skýrasta dæmið um varðstöðu um óbreytt kerfi í samfélaginu.

Kennaraskortur blasir við í leikskólum og grunnskólum. Ástæðan er sú að færri leggja fyrir sig kennaranám en áður eftir að það var lengt í fimm ár. Þetta blasir við öllum nema forvígismönnum samtaka kennara. Pólitísk fjárfesting er ekki annars eðlis en önnur, menn eiga erfitt með að viðurkenna að þeir hafi veðjað á rangan hest.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarnans, fagnaði á dögunum fjögurra ára afmæli útgáfunnar. Mátti skilja hann svo að það gengi kraftaverki næst að svo lengi hefði tekist að halda úti vefsíðunni þrátt fyrir samfellt tap á útgáfunni. Kjarninn styðst greinilega við öfluga stuðningsmenn eins og allir íslenskir fjölmiðlar. Í greininni sagði Þórður Snær:

„Fjölmiðlaumhverfið hérlendis er nefnilega galið, og það virðist ekki vera neinn vilji til að breyta því. Það samanstendur af ríkisfyrirtæki sem fékk 3,8 milljarða króna af skattfé á síðasta ári. Til viðbótar hafði RÚV 2,2 milljarða króna í auglýsingatekjur á árinu 2016. Samtals gera þetta sex milljarðar króna.“

Að standa vörð um ríkisrekstur á útvarpsstöð er skýrasta dæmið um varðstöðu um óbreytt kerfi í samfélaginu. Sex milljörðum króna er varið til að standa undir þessum rekstri. Rökstuðningurinn er að íslensk menning eða jafnvel íslenskt samfélag fái ekki þrifist nema ríkisútvarpsstöðin lifi, helst með enn meira fé á milli handanna.

Mennta- og menningarmálaráðherrar standa ráðþrota gagnvart augljósri þörf fyrir að brotist sé út úr þessum vítahring. Fyrir nokkru var skipuð nefnd um vanda íslenskra fjölmiðla og nú á að skipa nefnd um vanda íslenskra bókaútgefenda. Fé til að reka leikhús. Íslensk miðaldamenning er hornreka. Loks hefur verið heitið átaki til að tryggja stöðu íslenskunnar á tíma gervigreindar.

Á tímum þegar ný tækni sækir að íslenskri tungu skapar ríkið einni stofnun gamallar tækni aðstöðu til að afla og ráðstafa sex milljörðum króna.

Þessum sex milljörðum væri mun betur varið með því að veita styrki til efnisgerðar í fjölmiðlum, bókum, leikhúsum og kvikmyndum. Þá yrði til nýr vaxtarbroddur í íslenskri menningarstarfsemi.

Mennta- og menningarmálaráðherra ætti að skipa eina nefnd til gera tillögur um slíkan sjóð og hvernig skynsamlegast væri að úrelda ríkisútvarpið sem leifar frá horfnum tíma.