16.8.2017 13:48

Döpur reynsla ferðamanna – okrið hefst strax við flugstöðina

Með framkomu af þessu tagi taka seljendur ferðaþjónustu mikla áhættu sem eykur líkur á að ferðamenn forðist landið. Þetta snertir hvorki gengi krónunnar né skort á opinberri stefnumörkun.

Reynslusögur ferðamanna birtast gjarnan á Facebook. Hér eru tvær.

Saga 1:

„Ein lítil saga um hvernig hægt er að eyðileggja ferðamannaiðnaðinn. Erlend kona sem ég þekki fór um síðustu helgi í dagsferð Gullna hringinn með fyrirtæki sem heitir Extreme Iceland. Fararstjóri var grískur en hafði víst verið hér á landi í 1 eða 2 ár. Hann talaði ekki góða ensku og gat ekki svarað neinum spurningum um Ísland, vissi ekkert um sögu landsins eða jarðfræði. T.d. sagði hann ekkert frá Þingvöllum á leiðinni þangað. Hann benti bara á hvert þau ættu að ganga að sagði ferðamönnunum bara að lesa á skiltin til að fá upplýsingar um staðinn. Er þetta hægt?“

Saga 2:

„Hjá mér voru þýsk mæðgin sem fóru í rauða túristavagninn í Reykjavík. Borguðu stórfé, svo var búið að breyta sumum leiðunum en ekki samræma segulbandið með upplýsingunum. Ha ha, aumingja útlendingarnir sneru hausnum í hring og gátu alls ekki áttað sig á hvar þetta hús til hægri væri enda var það annarstaðar. Bara rugl. Bílstjórinn vissi þetta.“

Með framkomu af þessu tagi taka seljendur ferðaþjónustu mikla áhættu sem eykur líkur á að ferðamenn forðist landið. Þetta snertir hvorki gengi krónunnar né skort á opinberri stefnumörkun. Hér einfaldlega um fúsk eða vörusvik að ræða.

Ríkishlutafélagið ISAVIA hefur nú sett rútufyrirtækjunum Kynnisferðum og Gray Line ný skilyrði vegna bílastæða við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli sem leiða til þess að fargjald hækkar nema þau færi sig fjær flugstöðinni. Í raun er hér um einskonar komugjald af hálfu ISAVIA að ræða sem hefur auk þess allar klær úti til að hafa sem mest fé af þeim sem koma á eigin bíl til flugvallarins og vilja geyma hann þar í utanferðinni.

Þessi hágjaldastefna ISAVIA hefur hins vegar skapað grundvöll fyrir einkafyrirtæki ungra manna sem taka við bíl ferðamanns við brottför hans og skila honum aftur við komu. Kjör þeirra eru hagstæðari en ISAVIA býður fyrir að láta bílinn standa á opinberu stæði. Forvitnilegt verður að sjá hvaða leið ISAVIA finnur til að grafa undan samkeppni af hálfu ungu mannanna.

Leigubílstjórar greiða ISAVIA hátt gjald fyrir aðgang að biðstæði við flugstöðina. Af samtölum við þá sem nota leigubíl til ferða til og frá Reykjavík má ráða að kostnaður við aksturinn sé álíka mikill eða meiri en að fljúga fram og til baka með eina ferðatösku með WOW Air til Miami (um 7 klst. flug).

Okrið hefst strax og stigið er út úr flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sé þjónustan að auki léleg er voðinn vís.