30.4.2017 13:13

Stjórnarskrárbrölti Jóhönnu lokið

Aðeins framgangan í ESB-aðildarmálinu jafnast á við ógöngurnar í stjórnarskrármálinu.

Skömmu fyrir þingkosningarnar 2013 fluttu formenn þriggja stjórnmálaflokka: Árni Páll Árnason Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir vinstri-grænum (VG) og Guðmundur Steingrímsson Bjartri framtíð tillögu um viðbót við stjórnarskrána sem átti að gilda út næsta kjörtímabil, það er fram á vor 2017, nánar tiltekið til 30. apríl 2017. Tilgangur tillögunnar var að bjarga andlitinu vegna stjórnarskrárbröltsins sem Jóhanna Sigurðardóttir hóf með valdatöku sinni og Steingríms J. Sigfússyni.

Í tillögunni fólst að ekki þyrfti að rjúfa þing og efna til kosninga samþykkti alþingi breytingar á stjórnarskránni fyrir 30. apríl 2017. Áskilinn var aukinn meirihluti á þingi og einnig meðal kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þannig verði heimilt að afgreiða stjórnarskrárbreytingar óháð þingkosningum en í staðinn áskilið að breytingarnar þurfi bæði aukinn meiri hluta á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði í greinargerð tillögunnar og einnig:

„Sjötíu ára afmæli lýðveldisins 2014 verða kjörin tímamót í því sambandi en til öryggis er tímaramminn þó hafður rýmri eða allt til loka kjörtímabilsins. Tillagan er því til þess fallin að koma í veg fyrir að rof komi í þá miklu vinnu og þær miklu almennu umræður sem staðið hafa um íslenska stjórnskipan undanfarin ár í tengslum við vinnu stjórnlagaráðs.“

Jafnframt þessu var flutt tillaga til þingsályktunar um að alþingi fæli fimm manna nefnd að vinna áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fram á haust 2013.

Meirihluti þingmanna samþykkti þessar tillögur. Nefnd vann áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, valdi nokkra þætti í samkomulagi Stjórnarskrárnefnd afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra 7. júlí 2016 frumvörp til stjórnarskipunarlaga um þrjú eftirtalin efni: 1) Þjóðareign á náttúruauðlindum 2) umhverfis- og náttúruvernd og 3) þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda 

25. ágúst 2016 lagði Sigurður Ingi Jóhannsson sem þingmaður en ekki forsætisráðherra fram frumvarp til stjórnskipunarlaga sem var efnislega samhljóða tillögum stjórnarskrárnefndarinnar. Þar var lagt til að þrjár nýjar greinar bættust við stjórnarskrána, þ.e. um umhverfisvernd, náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda.

Sigurður Ingi þurfti hvorki að leggja tillögu um frumvarp sitt fyrir ríkisstjórnina né þingflokka hennar úr því að hann valdi þann kost að flytja það sem þingmaður.

Í kosningabaráttunni fyrir 29. október 2016 var Birgitta Jónsdóttir Pírati með stjórnarskrármálið á vörunum og þóttist ætla að mynda stjórn um afgreiðslu þess fyrir kosningar. Það var álíka mikið feilspark og annað sem einkennt hefur framgöngu þeirra sem kusu að taka undir með Jóhönnu Sigurðardóttur vegna stjórnarskrárinnar.

Aðeins framgangan í ESB-aðildarmálinu jafnast á við ógöngurnar í stjórnarskrármálinu. Þegar tímar líða fram verða þessi baráttumál talin meðal þess furðulegasta sem gerðist á stjórnmálavettvangi eftir bankahrunið í október 2008.

Nú er undanþágutíminn sem samþykktur var fyrir kosningar 2013 til að bjarga andliti fylgismanna Jóhönnu í stjórnarskrármálinu liðinn. Ekki stendur steinn yfir steini í málinu og spurning hvaða stjórnmálamanni dettur í hug að hreyfa málinu að nýju.