29.4.2017 14:48

Varoufakis ráðleggur May - samhljómur við Ísland

Höfuðráð Varoufakis til Theresu May er að hún forðist eins og heitan eldinn að setjast að samningaborðinu með ESB-mönnum. Geri Bretar það verði þeir dregnir inn í langvaranlegt stríð þar sem þeir verði niðurlægðir hvað eftir annað.

Leiðtogar ESB-ríkjanna 27 sem verða í ESB eftir að Bretar fara þaðan komu saman til fundar í Brussel í dag (29. apríl) til að leggja blessun sína yfir samningsumboð gagnvart Bretum vegna úrsagnar þeirra. Í fjölmiðlum segir að afgreiðsla umboðsins hafi aðeins tekið fáeinar mínútur en síðan hafi einstakir fundarmenn tekið til við að lýsa sjónarmiðum sínum.

Augljóst er að í upphafi leggur ESB áherslu á fjárhagslegu hliðina. Reynt verður að þrautpína Breta með ofurháum fjárkröfum. Þá verður þeim gert ljóst að eins og fljótt og verða má skuli allar ESB-stofnanir á brott frá Bretlandi en innan ESB keppa aðildarríkin um að fá þær til sín.

Í The Telegraph birtist í dag viðtal sem Ambrose Evans-Pritchard tók við Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja, sem vakti athygli fyrir harða baráttu sína fyrir fjárhagslegu svigrúmi Grikkja á úrslitastund þjóðarinnar eftir hrun. Evans-Pritchard segir að Theresa May, leiðtogi Íhaldsflokksins, kunni að hika við að þiggja ráð frá vinstri manninum Varoufakis, enginn viti þó betur en hann hvað felist í glímunni við valdakerfi ESB.

Varoufakis hefur sent frá sér endurminningar undir heitinu Adults in the Room. Segir Evans-Pritchard að í bókinni sé að finna grípandi lýsingu á reynslu höfundarins af hnífstungunum og svikráðunum innan ESB-kerfisins.

Höfuðráð Varoufakis til Theresu May er að hún forðist eins og heitan eldinn að setjast að samningaborðinu með ESB-mönnum. Geri Bretar það verði þeir dregnir inn í langvaranlegt stríð þar sem þeir verði niðurlægðir hvað eftir annað.  Af hálfu ESB muni menn nýta sér ólíka afstöðu breskra stjórnmálamanna, etja saman landshlutum og flokkum.

„Ráð mitt til Theresu May er að forðast fyrir alla muni samningaviðræður. Geri hún það ekki lendir hún í sömu gildru og Alexis Tsipras [forsætisráðherra Grikklands] og það endar með uppgjöf,“ segir Varoufakis, fyrrverandi samstarfsmaður Tsipras.

Hann segir að fulltrúar ESB muni beita þeirri aðferð að þæfa viðræðurnar. Þeir muni búa til samningslotur. Fyrst kynni þeir kostnaðinn við skilnaðinn og vilji fá hann viðurkenndan áður en tali um framtíðarviðskipti. Þeir kynni Bretum ESB-hringekjuna svo að bresku fulltrúarnir viti ekki alltaf við hverja þeir eigi að tala og þetta sé gert af ásetningi.

Þessi spá hefur þegar gengið eftir því að Angela May Þýskalandskanslari sagði fyrir leiðtogafundinn í Brussel 29. apríl að ákveða yrði meðlagið áður en lengra yrði haldið og hvatti Breta til að leggja sig meira fram um lausn.

„Þegar þið leggið fram hófsama tillögu munu þeir bregðast við henni með því að stara skilningslausir á ykkur og láta eins og þið hefðuð lesið þjóðsöng Svía fyrir þá. Þetta er varnarleikur þeirra,“ segir Varoufakis við Evans-Pritchard.

Varoufakis segir að eina leiðin til að forðast að lenda í köngulóarvefnum sé að taka frumkvæðið og svipta fulltrúa ESB tækifærinu til að gera illt af sér. Hann leggur til að Bretar sæki tafarlaust um aðild að evrópska efnahagssvæðinu með ósk um að fá þar sjö ára umþóttunartíma. „Þeir gætu ekki neitað þessu. Þeir hefðu ekkert til að standa á,“ segir hann.

Lýsing Varoufakis á örlögum flokka jafnaðarmanna í Evrópu er ekki síður forvitnileg en það sem hann segir um aðferðir ESB. Hann segir að evrópskir jafnaðarmenn hafi jafnan látið þannig að þeir höfnuðu aðhaldi í ríkisfjármálum, frekar ætti að þrengja að bönkum og fyrirtækjum, en almenningi með niðurskurði á opinberum útgjöldum.

Eftir hrunið hafi annað komið í ljós í Evrópu. Mið-vinstri flokkar sætti sig aðhaldsstefnu enda leggi þeir sig manna mest fram um að koma til móts við hagsmuni kröfuhafa. Jafnaðarstefnunni sé lokið í Evrópu hún sé „kapút“. Jafnaðarmenn hafi gengið fjármagnseigendum á vald, samið við þá að fordæmi Fausts. Í hruninu 2008 hafi þeir flutt tapið frá bankamönnunum yfir á þá sem máttu sín minnst.

Undir lok samtalsins segir að þrátt fyrir allt sem hann hafi reynt innan ESB sé Varoufakis fylgjandi ESB-samstarfinu. „Alla ævi hef ég verið þjálfaður til að lýsa andstöðu við grísk stjórnvöld því að þannig hagar maður sér sem grískur föðurlandsvinur. Í því felst ekki að ég vilji upplausn gríska ríkisins.“

Samhljómur við Ísland

Lýsing Varoufakis á framgöngu samningamanna ESB kemur heim og saman við reynslu okkar Íslendinga, vilji menn á annað borð viðurkenna að ekki hafi allt gengið eðlilega og glæsilega fyrir sig í aðildarviðræðunum við þá. Á sínum tíma voru lýsingarnar á þann veg frá utanríkisráðuneytinu og viðræðumönnum þess.

Þótt ESB-menn hæfu strax vorið 2011 varnarleik í sjávarútvegsmálum með því að neita að skila skýrslu af sinni hálfu og þættust vera að leita að frekari gögnum var það ekki fyrr en í janúar 2013 sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þorði ekki annað en setja viðræðurnar á ís af ótta við komandi þingkosningar. Hann áttaði sig ef til vill á að ESB-menn mundu reyna að etja stjórnmálaflokkum saman í kosningabaráttunni. Þeir hikuðu ekki við að ýta undir klofning innan flokka eða biðla til landshluta með loforðum um byggðastyrki og annars konar fjárstuðning.

Haustið 2011 fór ég í úttektarferð til Brussel á vegum Evrópuvaktarinnar og hitti ESB-embættismenn. Samtöl við þá sannfærðu mig um að þeir töldu sig hafa í fullu tré við íslensku viðræðumennina og ekki yrði vandamál að fá þá til að samþykkja ESB-skilyrðin. Vissulega væri andstaða meðal 3.000 bænda og 10 eigendahópa í íslenskum sjávarútvegi en fyrir ESB væri barnaleikur að glíma við slíkt. Þá yrði snúið upp á handlegginn á okkur í makríl-deilunni.

Vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms J. gerði ekkert með skjaldborg heimilinna en þeim mun meira fyrir kröfuhafana.

Auðvitað eiga Bretar að fara að ráðum Varoufakis að gerast aðilar að EFTA og EES en ekki láta draga sig út í fúamýri samningaviðræðna við ESB. Enginn kemur betri maður úr slíkum hildarleik ef hann á annað borð vill halda í eitthvað svigrúm til að ráða sér sjálfur.