22.4.2017 21:44

Kynning í Múlakoti

Samband sunnlenskra kvenna var með aðalfund í Goðalandi, félagsheimilinu hér í Fljótshlíð í dag. Í tengslum við fundinn var farið í kynnisferð í Múlakot.

Samband sunnlenskra kvenna var með aðalfund í Goðalandi, félagsheimilinu hér í Fljótshlíð í dag.

Að fundinum loknum og fyrir kvöldverð óskuðu þær eftir að fá að skoða Múlakot, það er gamla bæinn þar og garðinn sem eru í eigu sjálfseignarstofnunarinnar sem stendur að endurreisn garðsins og húsanna.

Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson, hjónin í Múlakoti, höfðu samband við mig og spurðu hvort ég vildi aðstoða þau við að veita þátttakendum í Sambandi sunnlenskra kvenna leiðsögn við heimsókn þeirra.

Ég er varaformaður í stjórn Vinafélags Múlakots og varð fúslega við ósk hjónanna. Skiptum við síðan með okkur verkum við leiðsögnina. Frú Sigríður sýndi húsin að innan, Stefán sýndi húsin að utan og ég skrúðgarðinn sem er 120 ára í ár.

Í fyrra efndi vinafélagið til kvöldfagnaðar í garðinum þar sen ég flutti ávarp sem birtist hér á síðunni.

Hér eru þrjár myndir frá kynningunni í dag. Þar sést garðurinn auk húsanna sem verða endurreist. 

IMG_2800

IMG_2780IMG_2793

Samband sunnlenskra kvenna heiðraði árið 1970 Guðbjörgu Þorleifsdóttur sem gerði garðinn í Múlakoti fyrir 120 árum í ár. Stóð sambandið að því að reistur var minnisvarði um Guðbjörgu með lágmynd af henni eftir Einar Jónsson myndhöggvara.

Byggingar í Múlakoti, rústir útihúsa, garðurinn framan við húsin ásamt lysthúsinu í garðinum voru friðlýst 28. maí 2014. Þetta myndar eina, órofa minjaheild sem mikilvægt er að verði varðveitt til komandi kynslóða, segir í friðlýsingunni. Bæjarhúsin voru reist í áföngum á árunum 1898 til 1946 á rústum torfbæjar sem enn má sjá í kjallara undir húsinu. Hlutar hússins frá ólíkum tímaskeiðum hafa varðveist í nánast upprunalegri mynd og vitna um samfellda búsetusögu margra kynslóða. Múlakot hefur sérstakt menningarsögulegt gildi sem einn elsti gisti- og greiðasölustaður héraðsins sem jafnframt var sveitaheimili og aðsetur listamannsins Ólafs Túbals. Staðurinn hefur sérstaka tengingu við íslenska listasögu en nokkrir af helstu myndlistarmönnum þjóðarinnar dvöldu þar og máluðu þjóðkunn málverk af staðnum og umhverfi hans. Loks er garður Guðbjargar Þorleifsdóttur frá 1897 einn elsti og merkasti einkagarður landsins.

Áttunda nóvember 2014 var ritað undir samkomulag um sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti í Fljótshlíð. Hlutverk stofnunarinnar er að tryggja eftir mætti varðveislu menningarminja og minjalandslags í Múlakoti. Um er að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897 til 1946 og innbú þeirra, rústir hesthúss, hlöðu og súrheysturns, málarastofu og verkstæði Ólafs Túbals, lystigarð Guðbjargar Þorleifsdóttur og lysthús auk annarra rústa sem tilheyra bæjarkjarnanum. Aðild að sjálfseignarstofnuninni eiga sveitarfélagið Rangaárþing eystra, Byggðasafnið á Skógum og eigendur Múlakots, Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson.

Stofnfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti var haldinn  laugardaginn 21. febrúar 2015 í Goðalandi í Fljótshlíð.

Tilgangur vinafélagsins er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti á þann veg að sem mest starfsemi geti farið fram í húsinu og tengdum mannvirkjum  til að standa undir rekstrarkostnaði. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e.t.v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan.