23.3.2017 13:47

Almannatenglar og viðskiptafréttir

Telja má á hendi annarrar handar íslenska blaðamenn sem hafa burði til að segja viðskiptafréttir á þann veg að aðrir skilji. Þekking á því sviði er til dæmis engin innan ríkisútvarpsins þar sem aldrei eru fluttar viðskiptafréttir en stundum raktir einhverjir þræðir, einkum ýti þeir undir tortryggni í garð fé- og kaupsýslumanna. Jarðvegur fyrir slíkar fréttir er meiri og betri en nokkru sinni eftir hrun.

Jón Þórisson, blaðamaður á Morgunblaðinu, gefur til kynna í grein í blaðinu í morgun að almannatenglar hafi afvegaleitt fjölmiðlamenn í aðdraganda sölu á hlutabréfunum í Arion banka sem kynnt var sunnudaginn 19. mars. Það hafi verið látið í veðri vaka að „sala til íslenskra lífeyrissjóða væri á lokametrunum. Búið væri að semja um helstu þætti, svo sem að miðað yrði við 80 aura á hverja krónu eigin fjár”.

Morgunblaðið hafi á hinn bóginn flutt aðrar fréttir: „Æ ofan í æ höfðu verið gerðar atlögur að því að draga lífeyrissjóði að samningaborðinu við takmarkaðan áhuga þeirra. Eins og Morgunblaðið hefur skýrt frá strönduðu þessar þreifingar jafnan.“

Veltir Jón fyrir sér hvort eigendur Kaupþings hafi „ákveðið að hrinda í framkvæmd atburðarás sem fallin sé til að auka líkur á og hraða því að bankinn seljist”. Í lok greinarinnar segir

„Eftir stendur spurningin, hvers vegna tóku fjölmiðlar þátt í að afflytja fréttir af sölu bankans til lífeyrissjóða á undanförnum mánuðum og vikum, þegar örfá símtöl hefðu getað leitt í ljós að fyrir þeim var ekki fótur?“

Telja má á hendi annarrar handar íslenska blaðamenn sem hafa burði til að segja viðskiptafréttir á þann veg að aðrir skilji. Þekking á því sviði er til dæmis engin innan ríkisútvarpsins þar sem aldrei eru fluttar viðskiptafréttir en stundum raktir einhverjir þræðir, einkum ýti þeir undir tortryggni í garð fé- og kaupsýslumanna. Jarðvegur fyrir slíkar fréttir er meiri og betri en nokkru sinni eftir hrun.

Þekkingarskortur á viðskiptaheiminum leiðir til þess að almannatenglar hafa meiri áhrif á fjölmiðlamenn en væri ef þeir hefðu sjálfstæða burði til að leggja mat á rás atburða eða lesa reikninga og skýrslur endurskoðenda.

Illa ígrundaðar frásagnir eða hreinar getsakir magnast í meðförum þingmanna sem vilja ganga í augun á fjölmiðlamönnunum með því að endurtaka hæpnar fullyrðingar í ræðustól alþingis. Þetta er vítahringur sem kallar á gagnrýni á þá sem reyna að rjúfa hann.

Regluverk íslenska fjármálakerfisins hefur verið endurnýjað með það fyrir augum að tryggja árangur af virku eftirliti. Nýlegir samningar eru í gildi um meðferð á eignarhlut í bönkum, til dæmis Arion banka. Að láta eins og þeir svindli á þjóðinni eða taki stöðu gegn þjóðarbúinu sem nýta sér reglurnar eða ákvæði samninga er til marks um afvegaleiðingu.