28.2.2017 15:30

Þriðjudagur

 Í fréttum dagsins segir:

„Velta flugfélagsins WOW air fyrir síðasta ár nam 36,7 milljörðum króna. Það er 111% aukning miðað við árið á undan en þá nam veltan 17 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.

Þar segir að rekstrarhagnaður fyrir félagsins afskriftir, fjármagnsgjöld og tekjuskatt (EBITDA) hafi verið 5,6 milljarðar króna og hafi þannig aukist um 3,2 milljarða milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins árið 2016 var 3,7 milljarðar króna samanborið við 1,5 milljarð árið 2015. Hagnaður ársins 2016 eftir tekjuskatt var 4,3 milljarðar króna.“

 

Þetta er glæsilegur árangur og sýnir enn gífurlegan vöxt í ferðalögum. Hann er ekki bundinn við Ísland. Þýska hagstofan birti nýlega tölur sem sýndu að rúmlega 100 milljón ferðamenn fóru frá þýskum flugvöllum árið 2016. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Evrópskir ákvörðunarstaðir voru vinsælastir.

Nú kaupa flestir flugfarþegar líklega miða sína beint á netinu. Ég var einmitt að kaupa farseðla þannig af WOW air. Fór ég inn á síðuna sem kom fyrst upp þegar ég leitaði að WOW air á netinu. Hún var á ensku og setti ég það ekki fyrir mig og ekki heldur að lokaverðið var gefið upp í dollurum.

Þegar kom að því að greiða með kreditkortinu neitaði WOW air að viðurkenna kortið og benti mér á að reyna annað kort, sem ég gerði, eða hafa samband við bankann minn sem ég gerði einnig. Svar bankans var þetta:

„Þú virðist hafa lent í því að fá höfnun á kortið sökum þess að þú varst að reyna að greiða íslensku fyrirtæki í erlendri mynt. Þegar gjaldeyrishöftunum var komið á laggirnar á sínum tíma var þessi takmörkun sett á öll íslensk greiðslukort, þ.e. að geta ekki greitt innlendum fyrirtækjum í erlendri mynt.

Ég mæli með að þú reynir að breyta gjaldmiðlinum yfir í ISK, þá ætti þetta að fljúga í gegn.“

Ég fór að ráðum bankans og bókaði mig og keypti miðann á íslensku vefsíðu WOW air og þá gekk þetta eins og í sögu. 

Það sparaði tíma og umstang fengju viðskiptavinir með íslensk kort sem álpast inn á enska vefsíðu WOW air strax ábendingu um að nota íslensku síðuna og borga í íslenskum krónum. Þá mætti einnig skýra málið í dálki á síðunni sem heitir algengar spurningar eða FAQ.

Hvað skyldi þessi angi gjaldeyrishaftanna annars eiga að gilda lengi?