20.2.2017 13:45

Mánudagur 20. 02. 17

Jónas Haraldsson lögfræðingur ritar grein í Morgunblaðið í dag, 20. febrúar, vegna fjölmiðlaumræðu um hættur af froskköfun í gjánni Silfru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Vinsældir Silfru réðust af myndbandi sem fór á flug í netheimum, þar var undraheimurinn í köldu, tæru vatninu sýndur. Nú er köfun þarna stór, arðbær þáttur í ferðaþjónustu.

Jónas segir: „Hafa málin þá þróast þannig, að upphaflega forsendan fyrir leyfi til djúpköfunar er ekki lengur fyrir hendi nema að litlu leyti og hefur Silfra, sem nær alla leið niður að Þingvallavatni, nú breyst í stærstu útisundlaug sem finnst hér á Íslandi. Maður spyr sig: Hvað með hávaða- og sjónmengun eða sérstaklega vatnsmengunina, sem hlýtur að stafa af þessum 45 þúsund manns eða fleiri sem fara þarna í gjána á ári?“

Jónas segir einnig: „Á Þingvöllum á ekki að leyfa yfirhöfuð neina atvinnustarfsemi með tilheyrandi athafnarými, átroðningi og umhverfisspjöllum, eins og með Silfru. Breytir engu þótt erlendir ferðamenn hafi af því ánægju og ferðaþjónustan græði vel á atvinnustarfseminni. Menn verða að fara að átta sig á þeirri staðreynd, að Þingvellir eru ekki skemmtigarður heldur þjóðgarður og flestum Íslendingum helgur staður, þótt sumir vilji gera út á staðinn.“

Þessu er ég sammála. Á sínum tíma voru Þingvallanefndarmenn á báðum áttum um hvort almennt ætti að leyfa takmarkaða köfun í Silfru og rætt var um á hvers ábyrgð hún ætti að vera. Nú er þetta komið úr öllum böndum. Í þessum orðum felst ekki gagnrýni á þá sem standa að þessari þjónustu heldur virðing fyrir því hvernig á að haga starfsemi á Þingvöllum. 

Jónas Haraldsson segir: „Ýmsir möguleikar væru þá þarna fyrir ferðaiðnaðinn til að fénýta sér þjóðgarðinn á Þingvöllum með því að búa til ný viðskiptatækifæri og söluvænar ferðir á þennan stað. Hefðu vafalaust margir ferðamenn áhuga á að fá að geysast um á fjórhjólum eftir göngustígunum, á snjósleðum á veturna, æfa fjallaklifur í Almannagjá eða svifdrekaflug og hvað annað í þjóðgarðinum, sem gæti glatt ferðamanninn og gert för hans eftirminnilegri og skapað ferðaiðnaðinum tekjur.“

Nú er um hálf öld frá því að ákveðið var að banna bílaumferð um Almannagjá. Nokkrum leiðsögumönnum þótti það aðför að ferðaþjónustunni. Sama þætti vafalaust einhverjum tæki Þingvallanefnd ákvörðun um að takmarka aðgang að Silfru. Lög heimila nefndinni slíka ákvörðun.