15.2.2017 14:00

Miðvikudagur 15. 02. 17

Í dag ræddi ég við Gísla Ferdinandsson skósmið í þætti mínum á ÍNN. Hann er elsti viðmælandi minn til þessa, verður 90 ára í október 2017. Frásögn hans er lifandi og skemmtileg, verður frumsýnd klukkan 20.00 í kvöld.

Enginn veit enn hvert verður næsta skref í darraðadansinum sem hófst á mánudaginn í Washington þegar Michael Flynn þjóðaröryggisráðgjafi sagði af sér vegna þess að hann laug að Mike Pence varaforseta um samskipti sín við sendiherra Rússa í Washington.

Í gær kom fram að Donald Trump hefði í nokkrar vikur vitað að Flynn væri ósannindamaður án þess að hrófla við honum. Föstudaginn 10. febrúar þóttist Trump ekkert vita þegar hann var spurður um frétt í Washington Post um samtöl Flynns við rússneska sendiherrann. Í gær lét blaðafulltrúi Trumps eins og dag hvern í nokkrar vikur hefðu Trump og hans menn velt fyrir sér stöðu Flynns en mánudaginn 13. febrúar hefði Trump loks ákveðið að rétt væri að biðja Flynn að segja af sér.

Allt ber þetta vott um mikinn vandræðagang og verður til þess að veikja enn traustið á stjórnarháttum Trumps. Stuðningsmenn hans eiga í vök að verjast í málsvörn sinni og andstæðingar hans færast allir í aukana.

Klukkan 13.18 þriðjudaginn 14. febrúar setti ég athugasemd inn á Facebook-síðuna Fjölmiðlanördar þar sem ég vakti máls á því að á vefsíðunni ruv.is mætti lesa frétt þar sem ranglega væri fullyrt að Flynn hefði verið rekinn úr starfi sínu sem þjóðaröryggisráðgjafi. Nokkru síðar afmáði ritstjóri ruv.is fréttina af síðunni og þar birtust tvær fréttir um málið. Fólst í því viðurkenning á að fyrsta fréttinn stæðist ekki gagnrýni.

Þetta gekk þó ekki sársaukalaust fyrir sig eins og sjá má hér. Hlýtur að vekja undrun hjá fleirum en mér hve gengið er langt í að bera blak af fréttastofu ríkisútvarpsins þegar réttilega er fundið að óvönduðum vinnubrögðum. Ekki er nóg með að beitt sé hártogunum og rangfærslum heldur er gripið til persónulegra árása. Allt er þetta líklega gert í von um að fælingarmátturinn dugi til að þagga niður í þeim sem leyfir sér að gera athugasemd við vinnubrögðin.

Ég kippi mér ekki upp við skítkast af þessu tagi. Mér er ljóst að svörin ráðast af málstaðnum, sé hann vondur eða vonlaus er gripið ómerkilegra andsvara.