26.12.2016 15:15

Mánudagur 26. 12. 16

Á árinu 2016 hefur hælisumsóknum í Noregi fækkað um 90%. Talið er að umsóknirnar verði alls um 3.000 í ár en voru 31.150 árið 2015. Þróunin hefur verið einstök að þessu leyti í Noregi. Í október einum árið 2016 lögðu 2.425 hælisleitendur fram umsóknir í Svíþjóð, um 600 færri en allt árið 2016 í Noregi.

Sylvi Listaug úr Framfaraflokknum er ráðherra innflytjendamála í Noregi. Hún sagði við vefsíðuna ABC Nyheter í nóvember: „Til þessa hafa um 2.700 hælisleitendur komið til Noregs í ár. Þeir eru næstum tvöfalt fleiri í Danmörku og rúmlega 22.000 í Svíþjóð á sama tíma. Þetta er ekki eingöngu unnt að skýra með landamæraeftirlitinu. Pólitísk skilaboð hafa áhrif og ég óttast að verði skipt um ríkisstjórn og Verkamannaflokkurinn taki við stjórnarforystu breytist þetta.“

Lars Østby, sérfræðingur í innflytjendamálum hjá norsku hagstofunni, tekur undir með ráðherranum gildi pólitískra yfirlýsinga þótt hann efist um að Listhaug-áhrifin séu jafnmikil og tölurnar gefa til kynna, aðrir þætti eigi einnig hlut að máli. Norskir sérfræðingar segja að mestu skipti samningur ESB og Tyrklands um lokun leiðarinnar frá Tyrklandi til grísku eyjanna. Þeir sem komi á bátum frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu eigi erfitt með að fá hæli í Noregi.

Norðmenn gerðu fyrir nokkrum misserum sérstakar ráðstafanir til að stöðva straum hælisleitenda frá Albaníu eða öðrum Balkanlöndum. Þeim var gert ljóst á afgerandi hátt að ekki þýddi að óska eftir hæli í Noregi, fólki yrði snúið til baka á 48 stundum enda kæmi það frá löndum sem teldust örugg miðað við alþjóðareglur.

Hér á landi hefur ekki verið gripið til jafnskipulegra aðgerða og í Noregi til að gera hælisleitendum sem ekki hafa neina lögmæta ástæðu til að leggja fram umsókn hér afdráttarlaust ljóst að umsóknirnar séu tilgangslausar. Í fyrra var um þetta leyti gefið „pólitískt merki“ frá alþingi um að ríkisborgaralögum kynni að verða beitt til að koma til móts við óskir hælisleitenda frá Albaníu. Þetta hefur dregið dýrkeyptan dilk á eftir sér.

Þegar ráðist var í smíði nýrra útlendingalaga hér var haft á orði að farið yrði að norskri fyrirmynd. Hafi það verið gert er augljóst að í lögum eru heimildir sem unnt er að nýta til að takmarka tilhæfulausan straum hælisleitenda hingað. Þessar heimildir á að sjálfsögðu að nýta á sama hátt og gert hefur verið í Noregi.