9.12.2016 10:30

Föstudagur 09. 12. 16

Starfsstjórn hefur setið frá 30. október þegar Sigurður Ingi Jóhannsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í fréttatíma ríkisútvarpsins í hádeginu 8. desember veltu fréttamenn fyrir sér hvort Sigurður Ingi flytti áramótaávarpið 31. desember 2016 vegna þess að ekki hefði tekist að mynda stjórn.

Ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 þriðjudaginn 6. desember. Með hliðsjón af stöðu stjórnmála um þessar mundir er enn undarlegra en ella að forstöðumenn ríkisstofnana eða annarra stofnana sem eiga allt sitt undir ákvörðunum fjárveitingarvaldsins skuli reka upp ramakvein vegna fjárlagafrumvarpsins. Það er flutt til að halda í horfinu. Efni þess er aðhaldssamt eins og eðllegt er á pólitískum óvissutímum.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, gagnrýndi réttilega stóryrði rikissforstjóra í fjölmiðlum vegna fjárlagafrumvarpsins. Þeir ættu að ræða málið við þingið og fjárlaganefnd eftir framlagningu frumvarpsins.

Fríða Björk Ingvadóttir, rektor Listaháskóla Íslands, sér orð ráðherrans sem tilefni til gagnrýni á hann á Facebook, hún hafi ekki náð eyrum stjórnvalda með þeim aðferðum sem hann nefni. Hún nái ekki fundi fjárlaganefndar. Hún lætur eins og það séu ekki forstöðumenn stofnana sem hefji opinberar umræður um fjárhag stofnana sinna heldur fjölmiðlar. Hún segir:

„Þetta liggur í samfélagsumræðunni, og það er skylda fjölmiðla að mínu mati að segja frá þessum ágreiningi milli stofnana og fjárveitingarvaldsins, vegna þess að það er almenningur sem á þessar stofnanir og þær eru reknar fyrir skattfé. Og í þessum tilvikum, bæði hvað varðar háskólastigið og heilbrigðiskerfið, er verið að vega mjög alvarlega að innviðum samfélagsins, og þetta eru innviðir sem samfélagið þarf að reiða sig á til framtíðar.“

Þetta er einkennileg röksemdafærsls. Við öllum blasir að forstöðumenn stofnana telja sig hafa hag af því gagnvart fjárveitingarvaldinu að barma sér opinberlega. Að tala um það sem eðlislægan þátt samfélagsumræðunnar að hrópað sé á aukna hlutdeild í skattfé almennings með aðferðunum sem fjármálaráðherra gagnrýndi er blekking. Notaði ekki rektor listaháskólans skólaslitaræðu sína sl. vor til að kvarta undan fjárskorti?

Á sínum tíma þegar ég var aðili að ákvörðunum um fjárveitingar til stofnana og hinn samningsaðilinn kaus að bera raunir sínar á torg sagði ég gjarnan að greinilega væri ekki vilji til að ræða málið frekar við mig eða ráðuneytið. Menn skyldu þá leita annarra leiða en að lokum þyrfti þó samþykki mitt.