5.12.2016 10:30

Mánudagur 05. 12. 16

Á mbl.is má lesa nú að morgni mánudags 5. desember:

„Píratar ætla sér að hefja stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka í dag. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, gat ekki sagt til um hvort viðræðurnar verða formlegar eða óformlegar.

Fyrst verður þingflokksfundur Pírata haldinn klukkan 10 í Alþingishúsinu þar sem ríkisfjármálin verða rædd. „Það er það sem flestir flokkarnir eru að gera í ljósi þess að það á að leggja fram fjárlagafrumvarp í vikunni,“ segir Smári.

„Við erum í þeirri stöðu að þinghald er að koma ofan í hitt, þannig að við þurfum að halda mörgum boltum á lofti.“

Aðspurður segir hann að engar viðræður við aðra flokka hafi farið fram um helgina. Tíminn hafi verið notaður í undirbúning.“

Smári McCarthy er í þriggja manna nefnd Pírata sem hefur umboð flokksins til að standa að viðræðum um stjórnarmyndun, forseti Íslands veitti einum nefndarmannanna, Birgittu Jónsdóttur, þetta umboð föstudaginn 2. desember. Þrátt fyrir undirbúning alla helgina veit Smári ekki í dag hvort rætt verður formlega eða óformlega við aðra flokka í dag. Að vísu er ekki skýrt í fréttinni frá hvaða munur er á þessu tvennu hjá Pírötum.

Af orðum Smára má ráða að hann telur að setning alþingis þriðjudaginn 6. desember kunni að trufla eða jafnvel fipa Pírata við stjórnarmyndunina, þeir þurfi að huga að svo mörgum boltum.

Skömmu eftir að Donald Trump sigraði í bandarísku forsetakosningunum, 8. nóvember, sagði Birgitta, kafteinn Pírata, að alþingi yrði þá þegar að koma saman til að ræða „aðgerðaáætlun“ vegna sigurs Trumps auk þess taldi hún óviðunandi að þingmenn Pírata vissu ekki hvar þeir fengju skrifstofur á vegum þingsins.

Starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhanssonar beitir sér fyrir að þing kemur saman og leggur þar fram fjárlagafrumvarp. Hefur starfsstjórn áður staðið að framlagningu fjárlagafrumvarps. Miðað við hægaganginn í viðræðum stjórnarandstöðuflokkanna má ætla að þeir sætti sig bara bærlilega við minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins og kann hún því að sitja eitthvað áfram. Hlýtur þá að koma til álita að skipta um ráðherra í henni og þeir hverfi á braut sem ekki eiga lengur sæti á alþingi: Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigrún Magnúsdóttir en nýtt fólk setjist í stjórnina í þeirra stað.