25.10.2016 14:00

Þriðjudagur 25. 10. 16

Hér hefur verið vakið máls á þeirri staðreynd að þrátt fyrir yfirlýsingar um virðingu fyrir lýðræðislegum leikreglum ræður lítil klíka flokki Pírata. Saga þess valdabrölts alls er greinilega of flókin fyrir fjölmiðla. Þá kunna fjölmiðlamenn að láta glepjast af málsvörn forystuliðs Pírata sé leitað upplýsinga hjá því.

Í öðru lagi blasir við öllum að Píratar draga forystumenn þriggja vinstri flokka til viðræðna um stjórnarsáttmála og samstarf á fölskum forsendum. Upphaflega var látið eins og viðræðurnar ættu að verða til að auðvelda kjósendum að ákveða hver færi með stjórn landsins að loknum kosningum. Eftir fyrsta viðræðufundinn var svo sagt að trúnaður ríkti um það sem þar fór fram. Ef ekkert má spyrjast út um málefnin, hvers vegna eru formenn flokkanna ekki spurðir um ráðherraefnin: Steingrímur J. fjármálaráðherra að nýju? Smári McCarthy forsætisráðherra? Birgitta forseti alþingis?

Í þriðja lagi fara nú fram miklar umræður á samfélagsmiðlum um að Smári McCarthy, einn þriggja yfir-pírata, og Jón Þór Ólafsson, sem sat á þingi fyrir Pírata og er nú aftur í framboði, hafi látið eins og þeir séu með háskólagráður sem þeir hafa ekki. Má benda þeim á Eyjuna sem vilja vita meira um þetta.

Í fjórða lagi er óþarft að gleymist að eftir að Birgitta braut loforðið um að bjóða sig ekki fram í þriðja sinn sagðist hún á aðalfundi Pírata laugardaginn 29. ágúst 2015 ekki gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.

Hér hafa verið nefnd fjögur atriði sem öll snúa að ósannsögli og blekkingum. Þetta eru atriði sem við blasa rannsóknarlaust þegar rýnt er í málatilbúnað, framboð og stjórnmálastarf Pírata. Þótt Píratar séu ómarktækir og óhæfir til stjórnmálastarfa af ótta við að taka óvinsælar ákvarðanir eins og sannast á hjásetu Jóns Þórs Ólafssonar í mörg hundruð atkvæðagreiðslum á þingi mælist mikið fylgi við þá í mörgum skoðanakönnunum.

Þeir sem ræða stöðu Pírata í íslenskum stjórnmálum án þess að greina mennina og málefnin taka þátt í blekkingarleiknum með þeim. Þeir munu sitja eftir með sárt enni ef reynir á Pírata við landstjórnina.