24.10.2016 14:15

Mánudagur 24. 10. 16

Þegar ráðist var í endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs undir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir aldarfjórðungi var höfuðáhersla lögð á að fækka millifærslusjóðum af ýmsu tagi. Þar sátu stjórnmálamenn og embættismenn yfir hlut þeirra sem unnu að verðmætasköpuninni. Sjóðirnir voru leifar þeirrar skoðunar að þeir sem sköpuðu verðmætin hefðu minna vit á ráðstöfun þeirra en stjórnmálamenn og embættismenn.

Nýi flokkurinn, Viðreisn, boðar nú endurkomu millifærslusjóðanna. Flokkurinn boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 23. október á sama tíma og fjórflokkurinn, Píratar, Samfylking, VG og BF, efndi til auglýsts leynifundar í Litlu-Lækjarbrekku. 

Viðreisn reyndi að beina athygli frá baktjaldamakkinu undir forystu Pírata með því að kynna svonefndan innviðasjóð til sögunnar. Sjóðurinn er hluti afgjaldskerfis innan sjávarútvegsins sem Viðreisn ætlar að nota til að auka gjaldtöku á útgerðarmenn undir því yfirskini að afgjaldinu verði „varið til innviðauppbyggingar á þeim svæðum þar sem kvóti fiskiskipa er upprunninn“. Að sjálfsögðu verður ekkert sjálfvirkt í þessu efni heldur verður komið á fót opinberu kerfi undir stjórn stjórnmálamanna til að halda utan um þennan nýja millifærslusjóð og ráðstafa fé úr honum.

Viðreisn sýnir með þessari tillögu að þar fer gamaldags millifærsluflokkur. Í raun þarf það ekki að koma á óvart vegna aðdáunar flokksins á Evrópusambandinu og áhuga á að Ísland verði hluti ESB-kerfisins sem einkennist af sjóðum og millifærslum. Mikilvægur liður í boðun ESB-aðildarsinna snýr að lofsöng um væntanlega aðild Íslands að ESB-sjóðakerfinu. Hugmyndin um innviðasjóðinn kann raunar að vera komin frá Brussel. Ef til vill ætla Viðreisnarmenn að fela Brusselmönnum að ráðstafa sjóðnum til að treysta tengslin við þá.

Væri ekki bann við reykingum í Litlu-Lækjarbrekku mætti líkja fundi Pírata og co. þar sunnudaginn 23. október við það þegar menn hittast í reykfylltum bakherbergjum til að ráða ráðum sínum. Oftast vilja menn að sem minnst sé vitað um slíka fundi og viðurkenna stundum alls ekki að til þeirra hafi verið efnt.

Þetta á ekki við um fjórflokkafund Pírata. Hann var auglýstur í bak og fyrir og allt kynnt nema niðurstaðan. Þegar spurt var um efni fundarins var það sagt trúnaðarmál. Þrátt fyrir ítrekaðan vilja flokkanna fjögurra til að fá sem mest fylgi mátti alls ekki upplýsa hvað flokkarnir hefðu sameiginlegt að bjóða. 

Þessi leynd er í anda stjórnarhátta Pírata-klíkunnar. Hún ætlar gefa út sína lýsingu á efni fundanna tveimur dögum fyrir kosninga og túlka að hætti Birgittu.