22.10.2016 11:30

Laugardagur 22. 10. 16

Fyrir fáeinum vikum sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í viðtali í Bretlandi að stjórnarmyndun yrði líklega erfið að kosningum loknum vegna hugsjónaflokksins (!) Pírata. Nú hafa Píratar fengið Samfylkingu, VG og BF í lið með sér til að binda hendur Guðna Th. og neyða hann til að veita Pírötum umboð til stjórnarmyndunar. Birgitta Jónsdóttir efndi oft til samblásturs gegn Ólafi Ragnari nú vegur hún að Guðna Th.

Það sem flokksformennirnir nota til að réttlæta þessar stjórnarmyndunarviðræður sínar er óvild í garð Sjálfstæðisflokksins. Þeir færa sig með viðræðunum nær samstöðu um að halda áfram tilraun til aðildar að ESB, um að hækka skatta, um að vega að fyrirtækjum, um að þrengja svigrúm einstaklinga og um að reka ríkissjóð á ábyrgðarlausan hátt. Allt skilur þetta á milli þeirra og Sjálfstæðisflokksins.

Eitt er að flokkarnir sameinist gegn Sjálfstæðisflokknum, annað að gera það undir forystu flokks sem vill beinlínis ögra forseta Íslands á þann hátt sem Píratar gera. Vissulega var varasamt fyrir Guðna Th. að tala eins og hann gerði í sjónvarpsviðtalinu í Bretlandi. Hann hugsaði greinilega ekki út í að Birgitta hagaði sér eins og Trump sem ræðst markvisst á þá sem hann telur að geri á hlut sinn.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna og frambjóðandi Bjartrar framtíðar, segir í Fréttablaðinu í dag:

„Því er ekki að leyna að stóraukinn ferðamannastraumur til landsins og hagstætt verðlag á íslenskum sjávarafurðum hefur reynst mikil búbót fyrir íslenskt samfélag. En óveðursskýin hrannast samt upp við sjóndeildarhringinn. Í raun má líkja ástandinu á Íslandi við svikalogn. Miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar er farið að skapa vandamál fyrir íslenska útflytjendur og í raun alla aðila sem standa í verslun og viðskiptum. Erfitt er að reka fyrirtæki í slíku ástandi.“

Andrés getur ekki fengið sig til að viðurkenna að ákvörðun núverandi stjórnarflokka um að hætta ESB-aðildarbröltinu og snúa sér að afnámi hafta, lækkun tolla og vörugjalda í stað þess að ekkert mætti eða ætti að gera nema með samþykki ESB hefur gjörbreytt samfélaginu og efnahagslífinu. Til að réttlæta málstað sinn grípur hann enn og aftur til hræðsluáróðursins um „óveðursskýin“ í anda Icesave-boðskaparins. Hræða á þjóðina til að hún hundskist til að samsinna ESB-aðildarboðskapnum. Ætli Andrés treysti sér ekki lengur til að lesa um ófremdarástandið innan ESB? Er hann hættur að fylgjast með því?