27.9.2016 15:00

Þriðjudagur 27. 09. 16

Þrisvar sinnum munu þau etja kappi saman í sjónvarpi fram að forsetakosningunum 8. nóvember, Hillary Clinton og Donald Trump. Þegar horft er á fyrstu kappræður þeirra í dag, daginn eftir að þær fóru fram og eftir að hafa heyrt og lesið að Hillary sé sigurvegari fyrstu lotunnar er ekki unnt annað en að fallast á það mat sé rétt.

Hillary hélt sig við málefni og rökstuddi vel allar árásirnar sem hún gerði á Trump. Þær drógu vel fram hve mikill gerviheimur hefur verið reistur í kringum hann, heimur sem honum líkar og hann hampar öllum öðrum til fyrirmyndar. Það er sama hvar borið er niður hvergi er allt sem sýnist þegar Trump á í hlut. Hjá honum er allt í meira en himnalagi, loksins bjóðist bandarísku þjóðinni að velja hann sér til leiðsagnar og velsældar án þess að flækjast í skuldbindingum gagnvart öðrum þjóðum.

Trump tókst ekki að slá Hillary út af laginu þótt hann reyndi það með ýmsum ráðum. Þegar í ljós kom að meirihluti áhorfenda taldi Hillary hafa sigrað fyrstu lotuna gagnrýndu Trump og hans menn stjórnanda umræðnanna, Lester Holt frá NBC-sjónvarpsstöðinni, fyrir að hafa hlíft Hillary, ekki lagt fyrir hana erfiðar spurningar enda væri hann langt til vinstri sagði Trump að viðræðunum loknum.

Trump hélt aftur af sér þegar litið er til þess hvernig hann hefur ausið úr skálum reiði sinnar yfir þá sem veittu honum andstöðu í forkosningunum meðal repúblíkana eða Hillary að henni fjarverandi. Að þessu sinni missti hann ekki stjórn á sér á sama hátt og sjá hefur mátt oftar en einu sinni. Hann skorti öryggi og málefnalega festu Hillary.

Sumt af því sem Hillary sagði um Trump er þess eðlis að með ólíkindum er hve langt hann hefur náð og að hann telji sér til tekna sumt af því sem hún sagði, ekki síst varðandi fjármál hans og hve oft hann hefði komist hjá að greiða alríkisskatta.

Kappræðurnar drógu að sér mikla athygli langt út fyrir Bandaríkin því að víða um lönd vildu menn sjá milliliðalaust fordóma sína í garð Trumps rætast á sjónvarpsskjánum. Það gerðist.