29.8.2016 12:15

Mánudagur 29. 08. 16

Birtar hafa verið tölur í Frakklandi sem sýna að tekjur í París af ferðamönnum hafa minnkað um einn milljarð evra fyrstu átta mánuði ársins. Þessar tekjur námu 21 milljarði evra árið 2015, þær dragast saman um 1,5 milljarð evra í ár verði ekki breyting til batnaðar lokamánuði ársins.

Samdráttinn skýra yfirvöld með vísan til hryðjuverkanna í París í fyrra og Nice í ár. Flóð hafi verið i vor og veðrið óhagstætt. Þá hafi mikil sókn ferðamanna frá Asíulöndum inn á Île-de-France, það er til Parísar og nágrennis, alvarlega skaðað ímynd Frakklands gagnvart viðskiptavinum með góð fjárráð. Vitnað er í Valérie Pécresse, forseta héraðsráðs Île-de-France, sem hafi sagt að unnt sé að grafa undan góðu áliti á skömmum tíma en það taki langan tíma að endurheimta það.

Um 30% af veltunni í franskri ferðaþjónustu má rekja til umsvifa í Île-de-France héraði. Þessar nýju tölur vekja því áhyggjur víðar en í París og nágrenni. Í fyrra komu fleiri erlendir ferðamenn til Frakklands en nokkru sinni fyrr, 84,5 milljónir. Stjórnvöld vilja að þeir verði 100 milljónir árið 2020 til að Frakkland haldi forystu sinni sem ferðamannaland i heiminum. Af ótta við áhrif minni tekna af ferðamönnum skipuleggja frönsk stjórnvöld nú herferð til að snúa vörn í sókn.

Forvitnilegt er fyrir þá sem skipuleggja ferðaþjónustu hér á landi að fylgjast með umræðum og greiningu Frakka á stöðu sinni þegar harðnar á dalnum hjá þeim. Vissulega hafa þeir ávallt þurft að leggja hart að sér til laða til sín ferðamenn en fjöldi þeirra sem sækir Frakkland heim sýnir að land og þjóð hafa gífurlegt aðdráttarafl enda bjóða fá lönd sambærilega fjölbreytni fyrir ferðamanninn og Frakkland.

Sé það rétt að fjölgun eins hóps ferðamanna fæli aðra frá hlýtur það að setja svip á markaðssetningu og vilja til að taka á móti hópum sem aðrir forðast. Þetta minnir aðeins á sérstöðu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þar sem mannleg samskipti og tengsl við daglegt líf gistiþjóðarinnar skipta miklu. 

Nýlega var ég einn á ferð og bauð ferðamanni við vegarbrún far með mér til borgarinnar. Hann hafði á einum mánuði ekið hringinn og reynt og séð meira en ég hef gert. Hvað réð því að hann kom til Íslands frá mjög fjarlægu heimalandi sínu? Hann hafði heyrt tónlist Sigurrós í kvikmynd og vildi kynnast heimkynnum þeirra sem hana gerðu og fluttu.