25.8.2016 15:00

Fimmtudagur 25. 08. 16

Samtal mitt við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum bók hans Sögu tónlistarinnar sem er sannkallað stórvirki.

Í hádeginu í dag var opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þar sem Janne Haaland Matlary, prófessor við stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla og ráðgjafi norsku ríkisstjórnarinnar í öryggismálum, ræddi um öryggis- og utanríkismál líðandi stundar.

Það er mikill fengur að því að fá fyrirlesara frá Norðurlöndunum hingað til að ræða þessi mál vegna þess hve lítil fræðileg umræða er um þau af hálfu innlendra manna. Þá eru forsendur til slíkra umræðna af innlendri hálfu allt aðrar en norrænna fræðimanna vegna skorts á rannsóknum hér sem unnar eru með aðgang að þekkingu og reynslu herfræðinga eða hermanna.

Matlary prófessor sat í hópi sérfræðinga utan norska stjórnkerfisins sem hafði aðgang að leynilegum trúnaðargögnum hersins og samdi skýrsluna Sameiginlegt átak sem kom út í apríl og snerist um stöðu Noregs í öryggismálum og leiðir til að treysta öryggi lands og þjóðar. Hér má sjá hvað ég sagði um þessa skýrslu í maí 2015. 

Yfirmaður norska heraflans gaf út skýrslu með mati hersins á stöðu öryggismála í október 2015. Norska ríkisstjórnin lagði síðan fram tillögur sínar um varnar- og öryggismálastefnu Noregs 2017 til 2020 17. júní 2016. Eru tillögurnar nú til umræðu og afgreiðslu í norska stórþinginu.

Alþingi samþykkti 24. ágúst frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Miklu skipti að samstaða náðist um ályktun alþingis um þjóðaröryggi þar sem viðurkennt er að aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru hornsteinar.

Nú skal skipa þjóðaröryggisráð sem meðal annars skal meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum; stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.

Forsætisráðuneytið fer með málefni þjóðaröryggisráðs. Nú er þess beðið að það leggi fram áætlun um hvernig unnið skuli að matinu á ástandi og horfum í öryggis- og varnarmálum og öðrum þáttum nýju laganna. Miklu skiptir að traustið sem myndast hefur við afgreiðslu ályktunar og laga um þjóðaröryggismál á alþingi rofni ekki þegar kemur að sjálfri framkvæmdinni.

ps. Hér fyrir ofan er sagt að frv. um þjóðaröryggisráð hafi verið samþykkt 24. ágúst og reisti ég það á frétt Morgunblaðsins. Hún var ekki rétt, þingið afgreiddi frv. ekki þann dag.