24.8.2016 18:15

Miðvikudagur 24. 08. 16

 

Í dag ræddi ég við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing á ÍNN um bók hans Sögu tónlistarinnar sem kom út sl. vor, mikið og fróðlegt verk. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 á rás 20.

Vafalaust er unnt að stunda hluta lögreglu-háskólanáms í fjarnámi. Grunnfærnin til að sinna starfinu af öryggi fyrir sjálfan sig og aðra felst í námi og þjálfun þar sem fjarnám dugar ekki.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þennan þátt námsins sé best að stunda í aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skólinn hafi ráðgert að nýta aðstöðuna þar í tilboði sínu til Ríkiskaupa vegna námsins. Tilboðið fækk hæstu einkunn 9,5 af 10. Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson valdi hins vegar Háskólann á Akureyri og er gefið til kynna að það hafi verið vegna fjarkennslu.

Hafi byggðasjónarmið að lokum ráðið ákvörðun ráðherrans vó það þyngra en öryggissjónarmið. Ýmis ummæli vegna ákvörðunarinnar má skilja á þann hátt að hún leiði til fjölgunar lögreglumanna á landsbyggðinni. Ekki skal gert lítið úr mikilvægi þess. Öryggisþátturinn vegur líklega þyngra en búseta þegar tekin er ákvörðun um hvort hefja eigi lögreglunám. Sé dregið úr mikilvægi hans minnkar almennur áhugi á að stunda námið.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið föstudaginn 19. ágúst (sjá hér) þar sem ég taldi EFTA/EES-aðild henta Bretum best á leið þeirra út úr ESB. Um svipað leyti og greinin birtist var sagt frá áhuga breskra fésýslumanna á að Bretar gerðu tvíhliða samning við ESB eins og Svisslendingar hefðu gert. Tvíhliða samningar Svisslendinga hafa kallað á slíkan texta-frumskóg að líklega ratar enginn um hann enda skiptist hann í svo mörg hólf að ESB hefur lagt hart að Svisslendingum að taka upp aðra skipan. Þeir neita og komast upp með það vegna þess að land þeirra er eins og tappi sem unnt er að nota til að stífla lífæðar ESB. Eitt er að hluti Breta vilji semja um þetta við ESB annað að ESB taki þetta í mál. – Hafa Bretar sterkari samningsstöðu gagnvart ESB en Svisslendingar?