25.7.2016 14:30

Mánudagur 25. 07. 16

Í netheimum og annars staðar má sjá álitsgjafa segja að samningur Mosfellsbæjar við hollenskt fyrirtæki um land undir stór-sjúkrahús minni á það um árið þegar Huang Nubo, kínverski auðjöfurinn, var hér á ferð og vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum undir golfvöll og fleira. Þegar í ljós kom að lög leyfðu ekki sölu landsins til hans ætluðu sveitarfélög á svæðinu samt að gera honum kleift að hrinda áformum sínum í framkvæmd.

Engin spurning er um að sveitarstjórn Mosfellsbæjar hefur ráðstöfunarrétt á umræddri lóð. Rísi þar stór-sjúkrahús hefst ekki starfsemi í því nema það fullnægi kröfum íslenskra laga, landlæknir veitir starfsleyfið.

Að þessu leyti er aðstaðan allt önnur en þegar Huang Nubo átti í hlut. Þá var ljóst frá upphafi að hann gæti hvorki eignast jörðina né hafið hér starfsemi nema að fá til þess undanþágu frá lögum. Ein meginástæðan fyrir áhuga Nubos var að hann taldi sig hafa nauðsynlegan pólitískan stuðning. Forystumenn Samfylkingarinnar innan og utan ríkisstjórnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að fá Nubo til landsins.

Föstudaginn 4. maí 2012 ræddi ríkisstjórn Íslands til dæmis drög að samkomulagi við Huang Nubo. Samkomulagið var gert án vitundar Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem þurfti þó að veita Nubo undanþágu. Í kínverskum fjölmiðlum hreykti Huang Nubo sér af því að hafa sniðgengið Ögmund og lét eins og þar með væri hann kominn á beinu brautina til Grímsstaða. Eftir ríkisstjórnarfundinn kom hins vegar í ljós að ekkert samkomulag hafði verið gert.

Ég lýsti þeirri skoðun að Nubo væri að reyna á þanþol íslenska stjórnkerfisins – hann stundaði það sem á ensku væri nefnt social engineering. Hann komst langt inn í raðir Samfylkingarinnar og sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi eystra. Hann dró einnig fram ágreining innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Vissulega á eftir að reyna á marga íslenska innviði áður en nýtt, erlent hátæknisjúkrahús einkaaðila með 1.000 starfsmenn rís í Mosfellsbæ. Sé málið lagt að jöfnu við bröltið í Huang Nubo er athyglin dregin frá lítilmótlegum þætti forystumanna Samfylkingarinnar í Nubo-málinu.

Hvergi hefur birst neitt sem sýnir að núverandi ráðamenn leggi sig fram um að laða erlendu spítalafjárfestana til landsins. Raunar heldur Kári Stefánsson því fram í Fréttablaðinu í dag að heilbrigðisráðherra sé „mjög mótfallinn hugmyndinni“.