22.7.2016 14:30

Föstudagur 22. 07. 16

Donald Trump sagðist forsetaframbjóðandi laga og reglu í lokaræðu flokksþings demókrata í Cleveland, Ohio, að kvöld fimmtudags 21. júlí. Hann ætlaði að hefja Bandaríkin til vegs og virðingar að nýju og hindra að „hræðilega Hillary“ næði kjöri þangað. Hún hefði nú þegar valdið Bandaríkjamönnum nægum skaða.

Allt bendir til þess að eftir tilnefningu Hillary Clinton hjá demókrötum í næstu viku sæti hún stöðugum árásum fyrir óheiðarleika og græðgi frá Trump og hans mönnum. Þeir segjast hafa af nógu að taka. Kosningabaráttán verður illskeytt og persónuleg.

Clinton-liðið mun hamra á að Trump sé ekki treystandi fyrir forystu ríkisins og heraflans. Hann sé óhæfur vegna sjálfselsku sinnar, dónaskapar og vanþekkingar á stjórnsýslu og góðum stjórnarháttum.

Ástæðulaust er að vanemta Trump á lokaspretti hans andspænis Hillary. Hann hefur sannað að honum tekst að framkvæma það sem hann ætlar sér þótt fáir hafi trú á því í fyrstu. Þegar hann hóf baráttuna fyrir tilnefningu repúblíkana og beitti til þess dónaskap, kjafhætti og svívirðingum um andstæðinga átti enginn von á að hann næði svona langt.

Stjórnmál eru spennandi vegna óvissunnar um hvaða stefnu þau taka.

Talsmenn stærstu matvöruverslana landsins hallmæla mest innlendri landbúnaðarframleiðslu og láta eins og þeir geti fyllt skarðið sem yrði, tækjust áform um að grafa undan bændum á þann hátt að þeir yrðu að hætta að framleiða mjólk og kjöt.

Að þessu er vikið í grein Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóra Bústólpa, í Morgunblaðinu í dag þegar hann segir:

„Matvöruverslunin í landinu er sá aðili sem mest elur á þessari skoðun, þ.e. að lækka megi matarverð hér með innflutningi. Sú er bara alls ekki raunin og eru margar ástæður fyrir því. Versluninni gengur það eitt til að ná stjórn á þessum vöruflokkum þannig að hún sé í stöðu til að ráða álagningunni og geta aukið sína afkomu.“

Þetta eru einföld og skýr rök. Harkan í málflutningi talsmanna matvöruverslananna er ekki vegna umhyggju þeirra fyrir hag neytenda heldur vegna hagsmuna fyrirtækja þeirra. Þeir eru að vinna að höfuðmarkmiði sínu að skila sem mestum hagnaði. Almannatenglarnir sem mata fjölmiðlamenn á öðru vinna vel fyrir kaupinu sínu.