1.7.2016 18:00

Föstudagur 01. 07. 16

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar fróðlega grein um Svein Björnsson, fyrsta forseta lýðveldisins, í Morgunblaðið í dag. Hann telur Svein hafa verið allt annan mann en þá sem hann lýsir á þennan hátt:  „Stundum hvarflar það að greinarhöfundi hvort margir stjórnmálamanna í upphafi síðustu aldar hafi ekki verið geðveikir, elliærir, alkóhólistar ellegar dópistar. Jafnvel sumir þeirra með margar greiningar.“ Þótt ekki sé tekið mið af öðru en að nú eru fluttar hundruð eða þúsundir af þingræðum um fundarstjórn forseta þingsins eða störf þingsins má spyrja hvort Vilhjálmur hafi getið sér til um hvað hrjáir samþingmenn hans.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefur ákveðið að stofna til deilna við þá sem framkvæma útlendingalögin. Hún lagði blessun sína yfir að hælisleitendum yrði boðið í Laugarneskirkju í von um að það mundi hindra lögreglumenn við skyldustörf þeirra og kýs að taka undir með þeim sem vega síðan að lögreglumönnunum fyrir hvernig þeir stóðu að verki þegar þeir neyddust til að beita valdi. Í samtali við Fréttatímann segir biskup í dag „Ég er slegin yfir því hvað kirkjunni var sýnd  gríðarleg óvirðing með þessum aðförum.“ 

Frásögnin í blaðinu ber með sér að kirkjunnar menn hafi stofnað til þessa atburðar í því skyni að ögra lögreglunni og kalla yfir hana vandræði. Öllum er í fersku minni hvernig hinir nýju bandamenn biskups í No Borders, samtökum stjórnleysinga, beittu sér gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á meðan hún var innanríkisráðherra.

Þá hefur markvisst verið vegið að Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, og starfsmönnum stofnunarinnar. Þegar marklaust reynist að saka embættismennina um lögbrot snýst ásökunin um að þeir sýni miskunnarleysi!

Biskup hefur tekið undir ásakanir á hendur Útlendingastofnun og nú er lögreglan skotmarkið. Biskup er í Svíþjóð á fundi með biskupum þegar rætt er við hana í Fréttatímanum og segir viðmælanda sinn í hópnum hneykslast á íslensku lögreglunni. Í Svíþjóð hefur verið kúvent í útlendingamálum þegar ljóst er að gamla stefnan leiddi til þess að lögreglan treystir sér ekki til aðgerða í tugum borgarhverfa nema í brynvarðri fylkingu.

Í krafti nýlegs úrskurðar Persónuverndar telur Útlendingastofnun sér heimilt „að leiðrétta rangfærslur sem hafðar eru í frammi á vettvangi fjölmiðla“ vegna útlendingamála. Lögreglan hefur sambærilega heimild og jafnvel skyldu til upplýsingamiðlunar.