31.5.2016 12:00

Þriðjudagur 31. 05. 16

Í fyrirlestri í Háskólanum í Bifröst 3. maí 2013 lýsti Guðn Th. Jóhannesson því að „ómenntuð sveitakona“ hefði verið „með það á hreinu að Íslendingar voru að berjast fyrir lífsafkomu sinni og að skipherrarnir á varðskipunum voru þjóðhetjurnar sem unnu stríðið“. Hann sagði síðan: „Yes! Íslandi allt! Og spurningin vaknar, er fávís lýðurinn aftur að pródúsera rangar sameiginlegar minningar? Og kemur enn til kasta okkar sagnfræðinganna. Því að því er ekki að leyna að í okkar hópi eru þeir til, og kannski er ég þar framarlega þó ég segi sjálfur frá, sem hafa lýst efasemdum um þessa sýn.“

Í samtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni sunnudaginn 15. maí nefndi Davíð Oddsson þennan fyrirlestur og sagði að Guðni Th. hefði lýst yfir að þorskastríðin væru ekki hetjudáð heldur þjóðsaga og mont. Sagði Davíð það alrangt, þarna hefði verið mikill sigur unninn hjá lítilli þjóð sem þorði að færa út landhelgina.

Hálfum mánuði síðar hittust þeir Davíð og Guðni Th. saman á Eyjunni og þá vekur Davíð enn máls á söguskoðun Guðna Th. og lýsir sig að nýju ósammála henni. Þessi orðaskipti urðu vegna málsins milli Björns Inga (BI) og Guðna Th. (GTH):

BI: Þú sagðir að fávís almenningur gæti...

GTH: ...nei...

BI: ...komið sér upp röngum [minningum]...

GTH: Það sagði ég aldrei, aldrei nokkurn tímann. Ég held það hafi verið haft eftir mér.

BI: Haft eftir þér?

GTH: Já, það er ósatt. Það er alveg ósatt. Alveg ósatt.

BI: Þannig að þú hafnar þeim ummælum.

GTH: Ég get ekki tekið svona. Þetta er ósatt.

Eftir sjónvarpsþáttinn 29. maí hafa andstæðingar Davíðs farið mikinn og sakað hann um dónaskap og leitast við að beina umræðum um þáttinn í þann farveg að vegið sé ósæmilega að Guðna Th. Þessi viðkvæmni  er í algjörri andstöðu við það sem Guðni Th. boðaði í upphafi kosningabaráttunnar, hann mundi svara öllum spurningum – hann mundi ótrauður takast á við það sem að höndum bæri í baráttunni. Nú efast hann um sómakennd Davíðs!

Fyrir 15 árum höfðu olíufélögin samráð um verð á ýmsum vörum. Vegna rannsóknar málsins voru birt tölvubréf sem gengu á milli starfsmanna félaganna. Í einu þeirra voru orð sem urðu fleyg: „fólk er fífl!!!!“ Hvert sem tilefnið var spillti þetta málstað félaganna mjög meðal almennings. Orð Guðna Th. „fávís lýðurinn“ eru af sama meiði. Þau breytast ekki með árásum á Davíð Oddsson.