29.5.2016 23:00

Sunnudagur 29. 05. 16

Í dag fórum við í Semperoper í Dresden og sáum Lohengrin eftir Richard Wagner. Christian Thieleman var hljómsveitarstjóri. Anna Netrebko var Elsa von Brabant, Piotr Beczala Lohengrin og Evlyn Herlitzius Ortrud svo að ég nefni þá listamenn sem fengu mest lof í lófa.

Nokkrar sýningar hef ég sótt í kunnum óperuhúsum en aldrei kynnst jafnmikilli hrifningu áhorfenda og hér í Dresden í dag. Þegar lófatakið og bravó-hrópin höfðu staðið í rúmar 10 mínútur yfirgáfum við salinn en áfram var klappað og hrópað.

Semperoper var reist á 19. öld. Salurinn er glæsilegur og heldur vel utan um þá sem þangað koma. Fyrir sýninguna fengum við ásamt nokkrum Íslendingum sem gerðu sér ferð til Dresden til að njóta þessa listviðburðar að skoða óperhúsið baksviðs.

Hér steig Einar Kristjánsson óperusöngvari sín fyrstu skref á fjölunum árið 1933 þegar hann stundaði nám í Dresden. Hann var hér í þrjú ár en þá ákvað hann að flytjast til Stuttgart.

Einar B. Pálsson, verkfræðingur og prófessor, sem stundaði nám í Dresden á árum nafna síns Kristjánssonar hefur sagt frá velgengni söngvarans í Dresden, hann hafi ákveðið að flytjast til Stuttgart til að takast á við meira krefjandi verkefni.