11.4.2016 17:00

Mánudagur 11. 04. 16

Nú liggur fyrir að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, veit ekki hver á húsnæði höfuðstöðva Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun þar sem segir að sjálfseignarfélögin Fjalar og Fjöln­ir, eigi tæp 82% í Alþýðuhús­inu ehf., sem aft­ur sé eig­andi skrif­stofu­hús­næðis Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að Hall­veig­ar­stíg 1 í Reykja­vík ásamt þrem­ur einka­hluta­fé­lög­um og Sig­fús­ar­sjóði. Félögin Fjalar og Fjölnir séu skráð með erlendar kennitölur.

Kristján Guy Burgess er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Hann hefur minnt á fortíð sína sem rannsóknarblaðamaður í tilefni umræðna um Panama-skjölin og telur sig fyrstan blaðamanna hafa rannsakað mál tengd Panama-lögfræðingnum alræmda á DV árið 2004 en fengið boð „að ofan“ innan blaðsins að hætta rannsókninni. Gunnar Smári Egilsson var útgefandi, Mikael Torfason og Illugi Jökulsson ritstjórar.

Nú ætti Árni Páll að fela framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar að beita hæfni sinni sem rannsóknarblaðamaður til að finna eiganda höfuðstöðva flokksins, þó ekki nema í nafni gegnsæis.

Þrátt fyrir aðkomu sálfræðings logar enn allt í deilum milli Birgittu Jónsdóttur, þingleiðtoga pírata, og Ernu Ýrar Öldudóttur, formanns framkvæmdaráðs pírata. Birgitta sakar Ernu Ýr um að tala niður stefnu sína og þar með pírata.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson fer með fjármál í framkvæmdaráði pírata sem kom saman til fundar fimmtudaginn 7. apríl eins og segir í fundargerð á netinu. Þar gerði Gunnar grein fyrir fjármálunum. Um það er fært eitt orð í fundargerðina: Trúnaðarmál. Píratar eru flokkur gegnsæis, ekki síst í fjármálum stjórnmálamanna. Gegnsæi pírata nær ekki til eigin stjórnmálaflokks.