15.12.2015 18:15

Þriðjudagur 15. 12. 15

Engin opinber skýring er fyrir hendi á ástæðum þess að stjórnarandstaðan stofnar nú til málþófs á alþingi. Vilji hún auka fylgi sitt með því sýnir það best hve hún er í litlum tengslum við samfélagið.

Nærtækt er að álykta að rót ágreiningsins sé að finna í frumvarpi sem utanríkisráðherra hefur flutt um að færa þróunarstofnun inn í utanríkisráðuneytið. Flutningurinn hefur lengi verið gæluverkefni embættismanna í ráðuneytinu en í óþökk þeirra sem starfa undir merkjum stofnunnarinnar.

Ákvörðun utanríkisráðherra um frumvarpið er vafalaust tekin fyrir þrýsting frá embættismönnum hans því að engir almannahagsmunir hér á landi eru þarna í húfi, starfsmenn stofnunarinnar starfa flestir erlendis. Rökin fyrir flutningnum eru helst þau að hann breyti engu. Þeim mun einkennilegra verður í augum almennings að alþingi sé í raun óstarfhæft af þessum sökum.

Vegna þess hve ástæðan fyrir málþófinu er í raun fráleit er aldrei minnst á hana opinberlega. Sé gengið á þá sem helst ættu að vita um tilefni frumvarpsins er gjarnan hvíslað að með því að færast inn í utanríkisráðuneytið fái starfsmenn þróunarstofnunar stöðu diplómata. Allir hljóti að sjá hve miklu það skipti. Hvort fólkið sem aðstoðað er í Afríku eða annars staðar njóti þess betur sem gert er sé diplómati á ferð er sérstakt athugunarefni. Blessað fólkið yrði hins vegar örugglega undrandi ef því yrði sagt frá krísunni á Alþingi Íslendinga vegna þess að þingmenn átta sig ekki á mikilvægi málsins.

Lokun meirihlutans í Reykjavík á Laugaveginum fyrir umferð bifreiða er kjörin leið fyrir valdsmenn borgarinnar að sýna hver ráði. Þeir láta slagbrandinn falla þegar þeim einum finnst það réttmætt og bera ekki einu sinni við að leita samráðs við þá sem stunda atvinnurekstur á svæðinu. Markmiðið er einmitt að sýna þeim á ótvíræðan hátt hver ræður hvort bifreiðum sé ekið um Laugaveginn eða ekki.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað bogið við að borgaryfirvöld leiti ekki samkomulags við þá sem reka fyrirtæki við Laugaveginn um leikreglur í þessu máli. Lokunin kemst jafnan í fjölmiðla og minnir á andstöðu meirihlutans við einkabílinn auk þess sem Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri minnir á tilvist sína.