26.11.2015 17:45

Fimmtudagur 26. 11. 15

Viðtal mitt á ÍNN í gær við Eyþór Arnalds vegna skýrslu sem hann stóð að um stöðu og rekstur ríkisútvarpsins er komið á netið og má sjá það hér. 

Nú hafa hollvinir ríkisútvarpsins hafið útvarpsauglýsingaherferð til stuðnings hinu opinbera hlutafélagi. Miðað við hlustun er líklegt að auglýsingarnar nái aðeins til hinna sannfærðu. Alltaf er gott að herða á sannfæringu stuðningsmanna og hollvina. Hitt skiptir þó meira máli að stuðla að nýliðun en skortur á henni háir ríkisútvarpinu mjög eins og kemur fram í spjalli okkar Eyþórs. Ríkisútvarpið hefur því miður lent á skjön við samtímann af einhverjum ástæðum. Væri haldið á fjármálum og eftirliti með annarri opinberri stofnun á sama hátt og gert er gagnvart ríkisútvarpinu stæðu fréttamenn á öndinni og Kastljós logaði skærar en áður af hneykslan og vandlætingu. Aðhaldsleysi er helsti óvinur ríkisútvarpsins.

Fyrirsögnin efst á forsíðu Morgunblaðsins í dag er þessi: Hert eftirlit í skoðun – Forsætisráðherra gagnrýnir umræðuna um Schengen hér á landi og segir ákveðna menn horfa fram hjá staðreyndum um það sem sé að gerast í Evrópu.

Óljóst er hverjir þessir „ákveðnu menn“ eru, hafi einhverjir haldið því fram hér á landi að Schengen-samstarfið sé hið sama og áður þótt ytri landamæri Schengen-svæðisins í suðri hafi hrunið.  

Tekið skal undir með forsætisráðherra þegar hann segir mikinn vanda steðja að Schengen-samstarfinu. Nágrannaþjóðir okkar Svíar og Norðmenn hafa til dæmis ákveðið að taka upp landamæraeftirlit og skoða skilríki þeirra sem koma með ferjum og akandi. Flugfarþegum til landanna er ráðlagt að hafa með sér vegabréf verði spurt um skilríki. Norræna vegabréfasamstarfið er sagt í gildi en það snýst um að Norðurlandabúar geta farið á milli landanna án þess að sýna vegabréf. Þetta samstarf og sameiginleg landamæri Noregs og Svíþjóðar urðu til þess að Norðmönnum og Íslendingum var boðin aðild að Schengen á sínum tíma.

Í Morgunblaðinu í dag er einnig viðtal við forsætisráðherra vegna Schengen-aðildarinnar. Þar er skautað yfir málið á þann veg að mér þótti ástæða til að staldra við og skoða ummæli forsætisráðherra nánar en maður gerir við hraðlestur blaða. Við nánari athugun sá ég ýmislegt athugavert við orð forsætisráðherra og skrifaði í tilefni af þeim þessa grein á vefsíðuna vardberg.is