3.6.2015 19:55

Miðvikudagur 03. 06. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem héldu fyrsta ársfund sinn í síðustu viku. Með samtökunum er farið inn á nýjar brautir og þau leggja áherslu á virðiskeðju í þeim tilgangi að leiðin milli veiðimanns og neytanda sé snurðulaus til að tryggja mestu vörugæði og arðsemi.

Fyrir 40 árum minnist ég þess úr forsætisráðuneytinu og á ríkisstjórnarfundum, þar sem ég var ritari, hve harkan var oft mikil (og hrossakaupin) þegar fjallað var um óskir útgerðarmanna um að fá að smíða fiskiskip. Það þurfti leyfi til fjárfestingarinnar og fyrirgreiðslu sem var í höndum stjórnmálamanna. Þá sátu menn einnig löngum stundum og þráttuðu um fiskverð í nefndum og ráðum í nánu samráði við ráðherra. Markmiðið var að samstilla fiskverð og gengi þannig að útgerð og fiskvinnsla yrði réttu megin við núllið.

Með þessa reynslu í farteskinu er mér óskiljanlegt að einhverjum detti í hug að hallmæla núverandi kerfi við fiskveiðistjórn vegna þess að útgerðarmenn og fiskverkendur eða seljendur eigi allt undir  stjórnmálamenn að sækja. Í þeim efnum hafa orðið algjör þáttaskil með kvótakerfinu. Blómlegan hag félaga í SFS má fyrst og síðast rekja til þess að þeir þurfa ekki að sækja stórt og smátt undir hið pólitíska vald.

Skaðvænleg áhrif pólitískrar togstreitu um kvótakerfið og fiskveiðistjórnina eru hins vegar augljós. Þessa togstreitu virðist fyrst og síðast mega rekja til þess að stjórnmálamenn telja sig geta veitt einhver atkvæði með því að ala á tortryggni í garð stórfyrirtækja í útgerð, fyrirtæki, sem eru framúrskarandi á heimsmælikvarða.

Fái stjórnmálamenn atkvæði vegna óánægju með kvótakerfið taka þeir til við að hallmæla því eftir á þing er komið. Þess vegna er stöðugt þrátefli um þessi mál og hefur verið í rúm 30 ár. Skaðsemi þessara pólitísku deilna er meðal þess sem veikt hefur álit almennings á alþingi.

Þáttinn með Kolbeini Árnasyni má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti þar til kl. 18.00 á morgun.  Þeir sem eru með tímaflakk Símans ráða sjálfir hvenær þeir horfa á þáttinn.

Fyrir viku ræddi ég við Ágúst Þór Árnason frá lagadeild Háskólans á Akureyri og má sjá þann þátt hérna.