30.3.2015 21:10

Mánudagur 30. 03. 15

Í Kastljósi kvöldsins lýsti Sigmar Guðmundsson fjarstöddum manni sem rasista vegna skoðana sem hann hefði kynnt í blaðagrein. Samrýmist þetta lögum um ríkisútvarpið? Framganga Sigmars í þættinum einkenndist af pólitískri rétthugsun og tilraun til að gera lítið úr viðmælanda sínum, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er einkennileg árátta hjá stjórnendum Kastljóss að nauða í fólki til að fá það í þáttinn til þess eins að sýna því í tvo heimana – hitt er þó jafnvel enn einkennilegra að fólk skuli láta sig hafa það að fara í samtal í sjónvarpssal á þessum forsendum.

Þegar ég benti á það fyrir nokkrum árum að hafa mætti evru sem lögeyri án þess að ganga í Evrópusambandið risu ESB-aðildarsinnar til mótmæla og Percy Westerlund, þáv. sendiherra ESB gagnvart Íslandi, blandaði sér í þingkosningabaráttuna árið 2009 og sagði talsmenn Sjálfstæðisflokksins fara með rangt mál þegar þeir kynntu þessa skoðun. Ekkert ríki gæti notað evru á lögmætan hátt nema sem aðili að ESB.

Nú berast fréttir af yfirvofandi bankahruni í smáríkinu Andorra, sjá hér. Meðal þess sem rætt er í þessu sambandi er sú staðreynd að í Andorra er evra lögeyrir án þess að landið sé í ESB. Þetta er ekki í óþökk ESB heldur með samþykki framkvæmdastjórnarinnar með vísan til ákvæða í Lissabon-sáttmálanum. Ákvæðið heimilar þessa skipan – afstaðan til Íslands er pólitísk af hálfu framkvæmdastjórnarinnar. Að lokum eru það hins vegar ákvæðisáttmála ESB sem setja stjórnendum þess skorður. Vilji þeir heimila Íslendingum að nota evru án þess að vera í ESB geta þeir það.

Hér er þetta ekki nefnt til að mæla með einhliða upptöku evru í stað íslensku krónunnar heldur til að vekja athygli á enn einni blekkingunni sem ESB-aðildarsinnar hafa beitt í umræðunum hér landi. Sama er hvar drepið er niður í ESB-málflutningi aðildarsinnar, alls staðar er að finna ríka viðleitni til að beita blekkingum í þágu málstaðarins.