3.3.2015 18:15

Þriðjudagur 03. 03. 15

Um miðjan ágúst 2003 hækkaði Orku­veita Reykja­vík­ur (OR) gjald­skrá fyrir heitt vatn um 5,8% m.a, vegna tekjutaps af völdum hlý­inda á ár­inu og þar með minni sölu á heitu vatni.

Hinn 25. febrúar 2015 birtist frétt á mbl.is um að OR hefði slegið met í sölu á heitu vatni í janúar 2015, alls 9.660 þúsund rúm­metrar, eða nærri 9,7 millj­ón­ir tonna. Fyrra metið var 9.631 þúsund rúm­metr­ar í des­em­ber árið 2013. Notk­un­in í fe­brú­ar var mik­il en ólík­legt er talið að met hafi verið slegið þar sem mánuður­inn er þrem­ur dög­um styttri en janú­ar. Kann­an­ir OR sýna að um 90% af heita vatn­inu renna til kynd­ing­ar.

Skyldi gjaldskráin lækka núna?

Mikill titringur er sagður hafa verið í dag vegna þess sem til stendur að sýna í Kastljósi kvöldsins, það er sölu á varningi sem á að geta stuðlað að bata veikra einstaklinga, án þess að það hafi verið vísindalega sannað. Þessi deila minnir á að þróun frétta og fréttatengdra þátta í hljóðvarpi og sjónvarpi hér á landi þróast jafnt og þétt í átt til neytendaþátta. Í tilviki Kastljóssins er mikill áhugi á efni sem tengist heilsu og heilbrigði eða félagslegri þjónustu af einhverju tagi.

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég sænskan kunningja minn og sátum við heima hjá honum á kvöldfréttatíma, tveir áhugamenn um alþjóðamál og stjórnmál. Hann sagði: Ég er ekkert að kveikja á fréttunum, þær snúast hvort sem er ekki um annað en neytendamál.

Mér verður oft hugsað til þessara orða hans á fréttatíma. Í fréttum klukkan 18.00 í dag varð ég til dæmis ekki var við neina frásögn af ræðu forsætisráðherra Ísraels í Bandaríkjaþingi í dag, stórviðburði vegna heimsöryggismála.