2.3.2015 20:00

Mánudagur 02. 03. 15

Úrskurður Persónuverndar vegna miðlunar á upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins var birtur á vefsíðu stofnunarinnar í dag og má lesa hann hér.  Hvað sem líður hinni opinberu birtingu úrskurðarins hefur hann verið til umræðu síðan föstudaginn 27. febrúar þegar honum var lekið til vefblaðsins Kjarnans um svipað leyti og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri fékk úrskurðinn í hendur. Kjarninn felldi tafarlaust þann dóm að Sigríður Björk hefði brotið lög en í dag klórar Þórður Snær Júlíusson ritstjóri af nokkrum vanmætti í bakkann til að verja þann dóm blaðsins.

Til fyrirmyndar er hvernig Ólöf Nordal innanríkisráðherra tekur á málinu. Enginn efast um traust hennar í garð Sigríðar Bjarkar og auk þess boðar ráðherrann umbætur að forskrift Persónuverndar.  Hér má heyra útvarpsviðtal við hana. 

Undarlegt var að heyra kynningu á viðtali við ráðherrann á rás 2 þar sem því var enn haldið fram að lögreglustjórinn hefði brotið lög við embættisfærslu sína. Hvergi er þetta orðað á þennan hátt heldur talað um skort á heimildum vegna umgjörðar málsins í ráðuneytinu og embætti lögreglustjórans.

Meðal þeirra mörgu sem hafa blandað sér í umræðurnar um færslur mínar um þetta efni á Facebook er Sigurjón Vigfússon sem sagði frá því að í október 2007 hefði Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, lekið til Þórðar Snæs upplýsingum sem urðu að fréttaefni á mbl.is hinn 10. október 2007 og snertu Alcan og kosningar í Hafnarfirði vegna stækkunar þess.  Segir Sigurjón frá því að vegna þess sem hann bloggaði um málið hefði Þórður Sveinsson hringt í sig í öngum sínum af ótta við að missa starf sitt vegna vinargreiða við Þórð Snæ, félaga sinn.

Sigurjón Vigfússon birtir tengla á netinu máli sínu til stuðnings. Hvað sem gerðist 2007 er ljóst að nú, föstudaginn 27. febrúar 2015, hafa verið stuttar boðleiðir milli Persónuverndar og Kjarnans. Hér má lesa færslu á Facebook þar sem Sigurjón rifjar upp orðaskiptin frá 2007.