26.12.2014 17:00

Föstudagur 26. 12. 14

Sum mál eru þess eðlis að þau verða ávallt til umræðu, þar á meðal er veiting fálkaorðunnar. Við forsetakosningar er gjarnan spurt hvaða afstöðu frambjóðendur hafi til orðuveitinga. Almennt má telja til vinsælda fallið að hafa efasemdir um gildi þess að veita einstaklingum orður enda fá þær jafnan færri en vilja. Þessar efasemdir hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar þjóðhöfðinginn fær hið þakkláta hlutverk að afhenda orðuna og kynnist gleði þeirra sem hana fá.

Handhafar forsetavalds, forsætisráðherra, forseti alþingis og forseti hæstaréttar, fá orðuna vegna embætta sinna, þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir taka við henni. Feðgarnir Hermann Jónasson og Steingrímur neituðu að taka við orðum og jafnaðarmennirnir Benedikt Gröndal og Jóhanna Sigurðardóttir. Aðrir forsætisráðherrar hafa tekið við orðunni, þeirra á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nú hinn 13. desember og hefur það kveikt umræður um veitingu hennar. Af því tilefni sendi skrifstofa forseta Íslands frá sér tilkynningu í dag, annan dag jóla, þar sem segir meðal annars:

„Hefðbundið er að handhafar forsetavalds, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar og forsætisráðherra, séu sæmdir fálkaorðunni og athöfnin fari fram á Bessastöðum. Hið sama á við um orðuveitingar til sendiherra erlendra ríkja sem byggja á samskiptavenjum við viðkomandi ríki. Ekki er sérstaklega greint frá þessum orðuveitingum með fréttatilkynningu til fjölmiðla en þær skráðar á lista yfir orðuhafa á heimasíðu embættisins.“

Tilefni tilkynningarinnar er greinilega tilraunin sem hefur verið gerð til að sverta veitingu orðunnar til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Einars K. Guðfinnssonar, forseta alþingis, með því að segja hana hjúpaða leynd. Tilkynningin minnir á hnignun fjölmiðlunar þar sem rokið er af stað með hálfkaraðar fréttir til að koma einhverjum í koll í stað þess að vinna málið í heild áður en af stað er farið. Oft er það ekki gert af ótta við að „fréttin“ verði að engu sé öll sagan sögð.

Varð ekki síðast hvellur vegna orðunnar þegar Ólafur Ragnar neitaði að veita hana fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna? Aldrei var nein tilkynning send að því tilefni. Að þjóðhöfðinginn hafni að veita orðu er fréttnæmara en hann veiti hana.