22.12.2014 20:15

Mánudagur 22. 12. 14

Í dag snaraði ég grein úr Le Figaro þar sem höfundur ræðir um deilur í Frakklandi vegna þess að jólajatan er sýnd á opinberum stöðum í landinu vantrúuðum til armæðu. Dómarar eru ekki sammála um hvort það brjóti gegn lögum um aðskilnað ríkis og kirkju að jatan sé til sýnis í ráðhúsum landsins, greinarhöfundur hefur skýran skilning á málinu eins og sjá má hér

Höfundurinn segir meðal annars:

„Um aldamótin við upphaf 20. aldar snerust stjórnmálin mjög um að tryggja framgang hins veraldlega, nú er veraldarhyggjan orðin hugsjónalegt vopn í höndum þeirra sem hafa gert guðlaus stjórnmál að kennisetningu sinni. Þessir einstaklingar, hvort sem þeir aðhyllast frjálsa hugsun eða eru í hópi öfga-vinstrisinna sem enn heillast af efnishyggju marxismans líta ekki á veraldarhyggjuna sem tæki til að stuðla að pólitískum og samfélagslegum friði  - sem hún er eða ætti að vera -  heldur sem vopn gegn trúarbrögðum, einkum gegn kristni. Þeir leita ekki að almannarými sem mótast af frelsi heldur almannarými sem er fullt af því sem Kostas Papaioannou kallar réttilega „freð-hugsjón“ þeirra. Tilhugsunin ein um að líta megi á Frakkland sem kristið land fær hárin til að rísa á þeim.“

Minnir þetta ekki dálítið á umræðurnar í borgarstjórn Reykjavíkur og viðhorf þeirra þar sem vilja ekki að skólabörn fari undir merkjum skóla í kirkju. Á móti hverju er þetta fólk að berjast? Notar það jólin „sem vopn gegn trúarbrögðum, einkum gegn kristni“? Andstaðan vekur kannski helst athygli vegna þess hve hún er kaldhæðnisleg  og í samræmi við kenninguna um „freð-hugsjónina“.

Í dag hafnaði stjórnsýsludómstóllinn í franska bænum Melun kröfu saksóknara um að jatan yrði fjarlægð úr ráðhúsi bæjarins. Skömmu áður hafði stjórnsýsludómstóll í Montpellier komist að sömu niðurstöðu vegna jötu í ráðhúsinu í bænum Beziers. Niðurstaðan varð önnur vegna ráðhússins í bænum Vendée og hefur hún verið kærð til æðra dómstóls.